Beint í efni

Landbúnaðarsýning á 60 hekturum!

12.06.2010

Stærsta landbúnaðarsýning Norðurlanda, hin sænska „Borgeby Fältdagar“, er nú orðin stærri en nokkru sinni fyrr og mun í ár ná yfir 60 hektara lands með 255 sýnendum. Fyrir vana landbúnaðarsýningargesti hljómar sá fjöldi sýnenda ekki mjög mikill, en þessi sýning er þónokkuð óhefðbundin enda utandyra að mestu og þar eru tæki og tól sýnd í notkun. Sýningin, sem nú er haldin í 12. skipti, verður haldin dagana 

30. júní og 1. júlí og er þema sýningarinnar í ár „vatn“, þ.e. vökvunarkerfi, þurrkun akra, varðveisla vatns ofl.

 

Þrátt fyrir metfjölda þátttakenda miðað við árið 2009, er það ekki höfuðmarkmið skipuleggjendans landbúnaðarráðgjafafyrirtækisins HIR Malmöhus AB. Mestu skiptir að fá bændur til þess að koma og sjá og prófa það nýjasta hverju sinni. Sýningin er þannig ekki skipulögð sem einhverskonar afþreying fyrir þá sem ekki tengast landbúnaði með beinum hætti.

 

Gestir sýningarinnar mega búast við því að sjá mögnuð ný tæki, meira eða minna til notkunar í jarðrækt og á sýningunni fá bændur einnig verklega kennslu og boðið er upp á ýmis stutt námskeið, nokkuð sem fæstar aðrarsýningar bjóða upp á.

 

Ef þessi pistill hefur vakið áhuga einhverra á því að fara á sýninguna í ár, geta viðkomandi fengið nánari upplýsingar og aðstoð hjá LK með því að senda póst á skrifstofa@naut.is eða hringja í 569-2237. Einnig er hægt að lesa um sýninguna á heimasíðu hennar, með því að smella hér.

 

Heimild: www.maskinbladet.dk