
Landbúnaðarstefna fyrir Ísland
12.09.2020
Við setningu Búnaðarþings í vor boðaði landbúnaðarráðherra að mótuð yrði Landbúnaðarstefna fyrir Ísland um „sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar”. Gerð stefnunnar er nú að fara á fullt og hafa Bændasamtökin óskað eftir tillögum frá LK fyrir þá vinnu. Landssamband kúabænda vann stefnumótun fyrir nautgriparækt árið 2018 til 10 ára sem byggði á eldri stefnumótun frá 2011-2021 og starfa samtökin eftir henni, þótt oft reynist það slagur við stjórnvöld hverju sinni að ná markmiðum hennar í gegn. Þá var stefnan kynnt á haustfundum samtakanna um land allt og góðar umræður sköpuðust um innihald og markmið. Og þá er spurt: Hvað viljum við sjá í stefnu fyrir landbúnaðinn í heild, stefnu sem stjórnvöld ætla sér að vinna eftir?
Í ræðu sinni sagði landbúnaðarráðherra: „Á sama tíma þarf slík stefnumótun að taka tillit til þess að íslenskur landbúnaður er ekki aðeins framleiðsluferill á matvælum. Íslenskur landbúnaður hvílir á breiðari grunni. Hann er hluti af vitund okkar um náttúruna, lífssýn bóndans og verðmætin sem felast í heiðum og dölum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á þessari arfleifð en um leið verðum við að horfast í augu við að kröfur, smekkur, viðhorf og lífstíll breytast hratt – nánast dag frá degi.” Þetta eru fögur orð og vona ég innilega að þau verði grundvöllur stefnunnar. Landbúnaðurinn stendur nefninlega ekki einn. Hann er hluti af verðmætasköpun, atvinnulífinu, umhverfinu og menningu þjóðarinnar og kemur við sögu í lífi fólks á hverjum degi. Hann ætti því að vera mun fyrirferðarmeiri í umræðunni.
Sérstaða Íslands
Stjórnmálafólk talar stundum um að fara í veldisaukningu í grænmetisframleiðslu á Íslandi og er það vel. Það þarf hins vegar að líta til möguleika landsins og haga seglum okkar eftir því. Vissulega er hægt að auka grænmetisframleiðslu, en það er hins vegar ekki hægt að rækta grænmeti hvar sem er og víða er landið þess eðlis að það nýtist best undir túnrækt eða sem beitarland. Landbúnaðarstefna þarf að taka mið af því og áherslan ætti að vera á framleiðslu heilnæmra afurða, hvort sem er kjöt, mjólk, grænmeti eða hvað annað, framleiddum á sjálfbæran hátt við mismunandi -en ávallt góð- skilyrði.
Við þekkjum sérstöðu Íslands þegar kemur að lyfjanotkun en þar skipum við okkur í efsta sæti ásamt Noregi yfir þau lönd sem nota hvað minnst af sýklalyfjum í landbúnaði. Þetta skiptir máli. Við búum líka við þann lúxus að ganga að hreinu vatni sem nánast gefnu og áburðarmengun er vart til staðar hérlendis á meðan ýmis Evrópuríki hafa þurft að grípa til sektarákvæða og kvóta í þeim málum. Við þurfum að standa vörð um þessa sérstöðu. Líklegast skiptir einna mestu máli að við erum ekki með svokölluð verksmiðjubú hérlendis, bú sem telja þúsundir gripa. Minni rekstrareiningar þurfa að geta staðið undir sér og við getum ekki og eigum ekki að fórna því í nafni endalausrar hagræðingar, því vandamálin sem því geta fylgt eru kostnaðarsöm. Sem dæmi má nefna stöðuna í Minnesota í Bandaríkjunum þar sem eru um 2,3 milljónir nautgripa, en þar er ástandið orðið mjög slæmt þar sem afrennsli uppistöðulóna fyrir búfjárskít frá gríðarstórum kjúklinga-, svína- og nautgripabúum er farið að menga grunnvatn með nitri og fosfór með þeim afleiðingum að það verður ódrykkjarhæft. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland á að forðast þá stöðu sem heitan eldinn.
Samkeppnishæfni
Eðlilega þarf samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar að vera ein af grunnstoðum stefnunnar, því ef íslenskur landbúnaður er ekki samkeppnishæfur þá er til lítils að vera með landbúnaðarstefnu. Forsvarsfólk kúabænda, líkt og annarra búgreina, hafa lengi barist fyrir greiðari aðgangi neytenda að skýrum upplýsingum um uppruna matvæla. Það er mér óskiljanlegt hve hægt það gengur að komast á þann stað þar sem matvæli eru upprunamerkt, hvort sem er í verslunum, mötuneytum eða á veitingastöðum. Það yrði gríðarstórt framfaraskref að koma því á, ekki einungis fyrir samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar heldur ekki síður fyrir neytendur. Við eigum rétt á því að vita hvaðan maturinn okkar kemur.
Tollamálin eru órjúfanlegur hluti af samkeppnisumhverfi landbúnaðarins og þau þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Því miður er staðan í dag þannig að hvar sem manni ber niður þá virðast miklir ágallar. Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins kemur formaður Bændasamtakanna inná misræmi í tollskráningum, þ.e. skráning á matvælum sem Evrópusambandið afgreiðir til Íslands ber ekki saman við skráningar hérlendis á matvælum sem afgreitt er inn til landsins. Ný úthlutunaraðferð tollkvóta hefur haft afar skaðleg áhrif á tollvernd íslensks nautakjöts, enda verð á tollkvótum nú einungis fjórðungur af því sem var í ársbyrjun 2019. Eins hefur ítrekað verið bent á að allar forsendur fyrir tollasamningi Íslands við Evrópusambandið eru brostnar og nauðsynlegt að þar verði gerðar breytingar á hið fyrsta. Sem betur fer hafa fulltrúar stjórnvalda tekið undir að samninginn þarf að endurskoða. Landbúnaðarráðherra, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og utanríkisráðherra hafa opinberlega tekið undir þau sjónarmið, ásamt fjölda þingmanna. Ef móta á landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, þá eigum við auðvitað að gera samninga sem eru hagstæðir fyrir Ísland.
Umhverfismál
Á Búnaðarþingi 2020 var samþykkt umhverfisstefna landbúnaðarins sem unnin var af umhverfisnefnd. Þar eru sett fram metnaðarfull markmið til næstu 10 ára og vel þarf að halda á spöðunum svo þau náist. Að sama skapi var ritað í samkomulag um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar að greinin yrði kolefnisjöfnuð fyrir árið 2040. Má því gera ráð fyrir að umhverfis- og loftslagsmál verði fyrirferðamikil í Landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Þá er mikilvægt að þar séu sett fram raunhæf markmið og fjármagn fylgi þeim verkefnum sem þarf að ráðast í. Rannsóknum fleygir hratt fram á þessum vettvangi og töluleg gögn sem unnið er með taka breytingum samhliða. Til að mynda hefur mikið verið rætt um áhrif metanlosunar frá nautgripum á loftslagsbreytingar en nú er ljóst að metan eyðist í andrúmsloftinu á um 10 árum. Þrátt fyrir það er ekki enn tekið tillit til þess í útreikningum helstu aðila á þessum vettvangi en líklegt má þykja að breyting verði þar á í nánustu framtíð. Við markmiðasetningu í Landbúnaðarstefnu þar að taka tillit til þess.
Af mörgu er að taka og mun fleiri atriði en hér eru talin upp þurfa að koma inn í stefnuna; starfsumhverfi bænda, velferð dýra og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt. Ég vona og hlakka til að um þessi mál skapist góð og málefnaleg umræða sem skilar okkur stefnu sem við getum öll unað sátt við, bændur, stjórnvöld og neytendur.
Ritað í Skagafirði 11. september 2020
Margrét Gísladóttir