Beint í efni

Landbúnaðarráðuneytið fellir ákvörðun Landbúnaðarstofnunar um synjun á gripaflutningum úr gildi

15.08.2008

Ráðuneyti landbúnaðar- og sjávarútvegsmála hefur með úrskurði þann 29. júlí sl. fellt úr gildi ákvörðun Landbúnaðarstofnunar (nú Matvælastofnunar) frá 15. október 2007, um að hafna umsókn um flutning holdagripa úr Flóanum austur í Skaftárhrepp.

Forsaga málsins er sú að kærendur fluttu búferlum af einn jörð í Flóahreppi á aðra jörð í Skaftárhrepp á sl. ári. Þau óskuðu í ágúst 2007 eftir heimild Landbúnaðarstofnunar til að flytja holdagripi á milli jarðanna tveggja. Því var hafnað í október s.á. á grunni umsagna héraðsdýralækna í Vestur-Skaftafellsumdæmi og Suðurlandsumdæmi og sérfræðings í sauðfjár- og nautgripasjúkdómum en allir þessir aðilar eru starfsmenn kærða, Landbúnaðarstofnunar.

 

Niðurlag úrskurðar ráðuneytisins er eftirfarandi: „Til fyrirmyndar má telja þá aðferð kærða [Landbúnaðarstofnunar] að leita sjónarmiða þeirra faglærðu starfsmanna stofnunarinnar sem gerst þekktu staðháttu. Með því leitaðist kærði við að fullnægja rannsóknarskyldu sinni skv. 10. grein stjórnsýslulaga. Kærendum var hins vegar ekki gefið færi á að kynna sér umsagnirnar áður en ákvörðun var tekin í málinu. Þetta verður að teljast verulegur annmarki á málsmeðferð kærða og ganga í bágu við andmælareglu 13. greinar stjórnsýslulaga. Benda verður á að í umsögnunum voru settar fram fullyrðingar, m.a. um staðreyndir, sem voru kærendum í óhag og virðast hafa haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Þegar um er að ræða skerðingu á mikilsverðum stjórnarskrárvörðum réttindum líkt og eignar- og atvinnuréttindum, eins og hér um ræðir, þá verður að gera ríkar kröfur til málsmeðferðar, þ.m.t. til þess að aðilar máls eigi kost á því að kynna sér gögn máls og tjá sig um þau, áður en ákvörðun er tekin.

 

Þar sem rannsóknarregla og andmælaregla stjórnsýslulaganna eru nátengdar er almennt erfitt að sjá að mál geti verið fullrannsakað hafi andmælaréttar ekki verið gætt. Ráðuneytið álítur að með hliðsjón af framangreindu að 10. gr. stjórnsýslulaganna hafi ekki verið nægjanlega gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Með vísan til þess hve verulegir annmarkar voru á málsmeðferð kærða í máli þessu, verður ráðuneytið að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Berist kærða að nýju beiðni frá kærendum um að heimila flutning nautgripa milli varnarhólfa ber honum að taka beiðnina til efnismeðferðar“.

 

(leturbreyting er undirritaðs)