Beint í efni

Landbúnaðarráðherra tilbúinn til að kanna hagkvæmni þess að hefja áburðarframleiðslu

21.02.2008

Landbúnaðarráðherra tilbúinn til að kanna hagkvæmni þess að hefja áburðarframleiðslu
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segist fyrir sitt leyti vera tilbúinn til að taka þátt í könnun á hagkvæmni þess að hefja köfnunarefnisvinnslu og áburðarframleiðslu hér á landi. Þetta kom fram í svari hans á Alþingi í gær við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar alþingismanns Vinstri grænna en hann spurði hvort ráðherrann muni beita sér fyrir athugun á hagkvæmni þess að hefja áburðarframleiðslu hér á ný í ljósi mikilla hækkana á áburði.


Einar sagði Íslendinga stöðugt þurfa að vera á verði hvað viðskiptatækifæri varðar, en eðlilegast væri að frumkvæði að stofnun nýrrar áburðarverksmiðju kæmi frá viðskiptalífinu sjálfu, „enda yrði rekstur slíkrar verksmiðju væntanlega á forræði fyrirtækja í eigu einstaklinga eða samtaka þeirra."


Jón spurði líka hvort ráðherrann hygðist beita sér fyrir átaki til að efla lífræna ræktun til mótvægis við hækkandi verð á innfluttum áburði og svaraði hann því til að ef verð á tilbúnum áburði muni verða viðvarandi hátt, „sem ég óttast raunar, gæti það og ýtt undir þróun í lífrænni ræktun hér á landi,” sagði Einar. Hann benti á að í núverandi búnaðarlagasamningi væri gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við endurræktun túna, akra, garða, landa og gróðurhúsa vegna aðlögunar að lífrænum búskap. „Þetta er vissulega ekki há upphæð á ári hverju, og hlýtur að koma til athugunar við endurskoðun búnaðarlagasamningsins núna í vetur hvort rétt sé að bæta þar eitthvað í.” Þá benti hann á að sérstakur stuðningur væri við ráðgjafarþjónustu við lífrænan vistvænan búskap og landnýtingu.


Einar var einnig spurður um hvernig hann hygðist bregðast við áhrifum hækkandi áburðarverðs á framleiðslukostnað landbúnaðarvara og verð á þeim til neytenda. Í svari hans kom fram að frjáls álagning væri á áburði hér á landi og því ekki hlutverk ráðherra að hlutast til um verðlagninguna sjálfa „Hins vegar er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af hækkun áburðarverðs því að hún kemur illa við bæði bændur og neytendur, mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar afurðaverðs og kann að hafa áhrif á eftirspurn eftir landbúnaðarvörum,” sagði Einar.


Talið er að áburðarverð hafi hækkað um allt að 70% milli ára og hafi þá tvöfaldast á tveimur árum. Hækkunin mun auka framleiðslukostnað bæði mjólkur og lambakjöts og einnig vega þungt í garðyrkju. Að landgræðslustarfi meðtöldu má ætla að kostnaðarauki vegna verðhækkunar á áburði nemi vel yfir einum milljarði króna.


„Þessi áburðarverðshækkun á ekki að hafa verri eða meiri áhrif á framleiðslukostnað búvöru hér á landi en í löndunum í kringum okkur en er engu að síður mjög alvarleg,” segir Einar.


Jón Bjarnason áréttaði í umræðum á Alþingi að grípa þyrfti til aðgera strax, menn mættu ekki sofna á verðinum. Kanna þyrfti allar leiðir og hagkvæmni stofnunar nýrrar áburðarverksmiðju.


"Ég legg áherslu á að aðgerðir og tillögur í þessum efnum mega ekki dragast. Bændur og landbúnaðurinn hafa ekki þol til að taka beint á sig þessar gríðarlegu verðhækkanir sem nú eru að hlaðast upp á flestum sviðum aðfanga," sagði Jón.