Beint í efni

Landbúnaðarráðherra leggur til aukið fjármagn til bænda

07.12.2020

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, birti í færslu á fésbókarsíðu sinni sl. föstudag tillögu um aukna fjármuni til bænda vegna COVID-19. Þar er lagt til að fjárframlag upp á 971 milljón krónur verði ráðstafað til þeirra bænda sem hafa orðið fyrir hvað mestum áhrifum af Covid-19, þá einna helst sauðfjárbænda og framleiðendur nautgripakjöts. Þá boðar hann frekari aðgerðir og áherslur fyrir íslenskan landbúnað á næsta ári og þær verði kynntar í þessari viku.
Færslan í heild sinni: „Óumdeilt er að íslenskir bændur hafa orðið fyrir margvíslegum áhrifum af COVID-19 faraldrinum, m.a. í ljósi þess að hingað koma ekki tvær milljónir ferðamanna á þessu ári. Þannig hefur eftirspurn eftir matvælum dregist saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma aukist. Það er innlend matvælaframleiðsla sem tekur það högg.
Og skaðleg áhrif á íslenska bændur liggja fyrir. Afurðaverð hefur lækkað talsvert. Söluþróun hefur verið óhagstæð. Ullarverð hefur lækkað. Bið eftir slátrun hefur lengst. Vísbendingar eru um offramboð á erlendum kjötmörkuðum vegna ástandsins og hefur heimsmarkaðsverð á kjöti lækkað um 14% frá því í janúar 2020.
Til að bregðast við þessari stöðu lagði ég til við ríkisstjórnina að bændum yrðu tryggðir auknir fjármunir á næsta ári til að lágmarka þessi skaðlegu áhrif. Á fundi sínum í morgun samþykkti ríkisstjórnin að gera tillögu fyrir 2. umræðu fjárlaga næsta árs um aukna fjármuni vegna þessa. Gerð er tillaga um fjárframlag upp á 971 m.kr. sem leitast verður við að ráðstafa í samráði við BÍ í gegnum búvörusamninga til þeirra bænda sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum, þá einna helst sauðfjárbænda og framleiðendur nautgripakjöts.
Með þessu erum við að fylgja fordæmi marga annarra þjóða, m.a. Noregs og Evrópusambandsins, sem hafa tekið ákvörðun um að grípa til sértækra aðgerða til að standa vörð um landbúnað á þessum krefjandi tímum. Um leið er verið að gæta hagsmuna neytenda sem eiga mikið undir því til skemmri og lengri tíma að íslenskur landbúnaður geti framleitt hágæðavörur á sanngjörnu verði.
Undanfarnar vikur og mánuði hefur í mínu ráðuneyti verið unnið að aðgerðum og áherslum fyrir íslenskan landbúnað á næsta ári. Meira um það í næstu viku.“