Landbúnaðarferð til Skotlands 25. júní til 1. júlí 2011
15.03.2011
Næsta sumar verður farið í landbúnaðarfagferð til Skotlands dagana 25. júní til 1. júlí þar sem m.a. verður farið á landbúnaðarsýninguna Royal Highland Show. Það er Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar ehf. sem heldur utan um ferðina en Snorri Sigurðsson, sem er þrautreyndur fararstjóri í landbúnaðarfagferðum, sér um skipulag og fararstjórn.
Síðast var farið í sambærilega ferð til Skotlands sumarið 2009 og er ferðin nú með svipuðu sniði. Ferðin byrjar með látum og þegar á fyrsta degi verður farið á sýninguna, sem og daginn eftir enda sýningin fjölbreytt og ómögulegt að komast yfir hana á einum degi svo vel megi vera. Ferðin er að öðru leiti byggð upp, líkt og margar af fagferðunum sem Snorri hefur séð um á síðustu árum, með hæfilegri blöndu af heimsóknum til bænda og öðrum heimsóknum sem áhugaverðar eru á hverjum stað. Í þessari ferð verða m.a. heimsótt amk. tvö sauðfjárbú, tvö kúabú, eitt kornræktarbú, holdanautabóndi, viskýverksmiðja, miðaldarkastali, leiðbeiningamiðstöð í landbúnaði og tilraunabú í naugriparækt. Þá verður ekið um afar fagra náttúru Skotlands, m.a. meðfram hinu þekkta Loch Ness vatni, enda mun ferðin leiða hópinn í einskonar öfugan hring um mitt landið, með viðkomu í Edinborg, Aberdeen, Inverness og Glasgow. Ferðin endar svo á aflöppunardegi í Glasgow áður en haldið er heim á ný.
Hægt er að lesa um ferðina á heimasíðu GJ Travel: www.ferdir.is en ferðin kostar 149.900,- á mann í tveggja manna herbergi (miðað við gengi og forsendur 15.01. 2011) og er bæði gisting, rúta, fararstjórn og morgunmatur innifalið í verðinu. Auk þess er kvöldmatur innifalinn í verðinu flesta daga. Pantanir og nánari upplýsingar fást hjá Ferðaskrifstofu GJ í síma 511-1515 (Emil og Guðrún).