Beint í efni

Lán í svissneskum frönkum dönskum bændum þungbær

11.08.2011

Það er víðar en hér á landi þar sem bændur hafa farið illa út úr lántökum í erlendri mynt. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum er talið bændur þar hafi tapað um 6 milljörðum danskra króna (130 milljörðum isk), á því að taka lán í svissneskum frönkum. Lánin voru flest tekin árið 2006 og 2007, þegar vextir í Sviss voru í lágmarki og gengi frankans talið mjög stöðugt. Þá var það um 4,50 DKK. Í ársbyrjun 2008 fór gengi frankans að styrkjast mjög gagnvart danskri krónu (sem tengd er evru, með smávægilegum vikmörkum), þannig að nú þarf um 7 danskar krónur fyrir 1 svissneskan franka. Bændur gagnrýna fjármálastofnanir harðlega fyrir lélega ráðgjöf og að hafa eindregið ráðlagt, ef ekki beinlínis lokkað þá til að taka þessi lán. Prófessor við Copenhagen Business School segir að aldrei hafi átt að lána fyrirtækjunum í annarri mynt en þau 

 

hafa tekjur í, slíku fylgi of mikil gengisáhætta sem geti gert útaf við reksturinn. Forstjóri samtaka fjármálafyrirtækja vísar gagnrýninni á bug, um sé að ræða fagmenn á sviði fyrirtækjarekstrar, bankar veiti aðeins ráðgjöf, en hin endalega ákvörðun sé bændanna sjálfra. Dönsku bændasamtökin, Landbrug og Fødevarer, taka undir með samtökum fjármálafyrirtækja, bændur verði að standa og falla með eigin ákvörðunum. Leit að blóraböggli hafi enga þýðingu. Að mati L&F standa umbjóðendur þeirra frammi fyrir gengistapi upp á allt að 8 milljarða danskra króna (rúmlega 170 milljörðum isk) vegna þessara lána./BHB

 

Umfjöllun DR

Umfjöllun Landbrugsavisen