Beint í efni

Lambanúmer á sauðburði

10.04.2012

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, sauðfjárræktarráðunautur hjá BÍ, tók saman grein á dögunum um lambanúmer á sauðburði. Hún var birt í Bændablaðinu en fylgir hér á eftir í heild sinni:

Nú styttist í sauðburð og eitt þeirra verka sem honum fylgja er að merkja lömb með númeri. Samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár nr. 289/2005 skal merkja öll lömb með forprentuðu merki þar sem fram kemur bæjarnúmer og lambanúmer innan hjarðar.
Lambanúmer í skýrsluhaldinu geta að hámarki verið fjórir tölustafir og æskilegt að menn miði við slíkt kerfi þegar númer eru pöntuð. Lambanúmer skulu að grunni til vera úr tölustöfum en þó er heimilt að nota bókstafi, þó er mælt með að nota eingöngu tölustafi. Hér á eftir verður lýst tveimur megin númerakerfum sem notuð eru fyrir lömb.

Hlaupandi númer
Númerakerfi sem nær frá 1-9999 og er óháð númeri móður er algengasta númerakerfið sem er í notkun á sauðfjárbúum í dag. Regla þessa kerfis er að fyrsta lambið sem fæðist á hverju vori fær lægsta númerið og svo koll af kolli, þannig að það lamb sem fæðist síðast fær hæsta númerið.

Margir nota undirraðanir innan þessa kerfis, t.d. að sæðingalömb séu með sér röð, einlembingar sér og gemlingslömb sér. Ef við tökum dæmi af búi þar sem fæðast 700 lömb fá tvílembingar og fleirlembingar röðina 1-499, sæðingalömb 500-599, einlembingar 600-649 og gemlingslömb 650-700.

Kostir þessa kerfis eru að það er mjög einfalt í notkun og það er hægt að nota með ýmsum tilbrigðum. Það gefur aldur lambanna til kynna í grófum dráttum jafnframt því að hægt er að koma upp undirröðum án mikilla vandkvæða. Einnig hentar það vel þar sem er margt fé og ekki hægt að koma á tengingu við ærnúmer.
Gallar kerfisins eru þeir að númerin hafa enga tengingu við númer móður, sem kallar á aukna vinnu við að fletta upp númeri hennar.

Númer sem byggja á númeri móður
Þetta kerfi byggir á því að númer lambsins tengist því númeri sem ærin ber. Nokkrar útfærslur eru til af því, t.d. að lömb undan ær númer 09-956, sem er tvílembd, væru númer 1956 og 2956, eða A956 og B956. Gallinn við það er sá að þannig raðast lömbin ekki í númeraröð í lambabók, sem mörgum bændum finnst hvimleitt. Til að leysa það vandamál er sú útfærsla að bæta 1, 2 eða 3 fyrir aftan númer ærinnar og þannig raðast lömbin í númeraröð í lambabók. Ef við tökum aftur dæmi af lömbunum undan 09-956 yrðu þau númer 9561 og 9562. Fósturlömb í þessu kerfi fá yfirleitt sama númer og fósturmóðirin ber. Ef ær númer 08-800 er einlembd og fóstrar annað lamb fær hennar lamb númerið 8001 og fósturlambið 8002.

Kostir þessa kerfis eru að það er þægilegt í notkun og lýsandi jafnt fyrir fjárglögga sem aðra. Með því að líta á lambsnúmerið er hægt að sjá undan hvaða á lambið er og jafnframt losna við að þurfa alltaf að fletta númeri móður upp í bók.

Gallar þessa kerfis eru þeir helstir að það hentar ekki á búum þar sem er margt fé, sökum þess hversu umfangsmikið það verður í innkaupum. Lambamerkin verða líka dýrari í innkaupum þegar kaupa þarf tvö merki af ákveðinni röð, aðgreind með 1 og 2 aftast, þar sem mun fleiri merki eru keypt en þarf svo að nota.

Til umhugsunar!
Líklega eru mörg önnur lambanúmerakerfi í notkun en þessi tvö sem lýst er hér þjóna tilgangi sínum jafn vel. Grundvallaratriði er hins vegar að kerfin séu einföld, skýr og skili sem mestum upplýsingum til bóndans. Einnig er gott að hafa í huga fyrir þá sem halda skýrslur yfir féð, líkt og flestir gera í dag, að hafa samræmi milli þess númers sem sett er í eyra lambsins og þess sem skráð er í bókhaldið. Það einfaldar allan gagnainnlestur, t.d. þegar sláturgögn frá sláturhúsum eru lesin inní skýrsluhaldskerfið. Greinarhöfundur hefur við vinnu sína orðið þess var að svo er ekki alls staðar, þ.e. við skráningu í bók er ekki sama kerfi viðhaft og er á merkjunum sem sett eru í lömbin. Slíkt býður heim hættunni á villum í skýrsluhaldinu.

Við ísetningu merkja er einnig rétt að huga að staðsetningu þeirra. Rétt staðsetning merkis er innarlega í eyranu. Ef við brjótum eyrað í tvennt og skiptum því svo í þrjá jafna hluta er rétt staðsetning á miðjunni milli fyrsta og annars þriðjungs. Rétt staðsetning er sýnd á mynd sem fylgir með greininni. Jafnframt skal haft í huga að til að merki sem eru opin detti síður úr eyranu eða brotni er mælt með að þau snúi aftur. Við ísetningu lokaðra merkja með merkjatöng getur verið gott að dýfa oddi merkisins í burðarslím áður en merkið er sett í, það bæði smyr og sótthreinsar.

/Eyjólfur Ingvi Bjarnason
eyjolfur@bondi.is

Aðalheimild:
Jóhannes Ríkharðsson. 1999. „Númerakerfi fyrir sauðfé“. Freyr 5.-6. tbl. 1999, bls. 69-71.
Mynd af staðsetningu merkis er frá OS ID Husdyrmerkefabrik as, Noregi.