Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Lagt til að falla tímabundið frá nýrri útboðsleið tollkvóta

01.12.2020

Í nýju frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðarráðherra, er lagt til að eldra fyrirkomulag útboðs tollkvóta fyrir búvörur verði tekið upp að nýju fram til 1. febrúar 2022. Það þýðir að ef kemur til þess að tollkvóti verði boðinn út á tímabilinu verði það samkvæmt áður gildandi útboðsfyrirkomulagi þar sem tilboðsgjafar greiða þá fjárhæð sem tilboð þeirra hljóðar upp á en ekki lægsta samþykkta verð líkt og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir. Samkvæmt greinargerð frumvarpsins er meginmarkmið þess að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda framleiðslu landbúnaðarafurða.

Forsagan er sú að 1. janúar 2020 var tekið upp nýtt fyrirkomulag um útboð tollkvóta, svokölluð hollensk leið. Með hollensku leiðinni stýrir lægsta boð verði á tollkvóta og var stuðst við það fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta fyrir seinni helming þessa árs. Með nýrri úthlutunaraðferð lækkaði verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt um 40% frá fyrra útboði, úr 331 krónu í 200 krónur á kílóið. Verð á tollkvótum fyrir osta lækkaði um 5,5% frá fyrra útboði.

Verði frumvarpið samþykkt verður aftur tekið upp eldra fyrirkomulag útboðs á tollkvóta og verður honum því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess er næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefur verið úthlutað að fullu og greiða bjóðendur tilboðsfjárhæðina að fullu.

Innlend framleiðsla tekur höggið af fækkun ferðamanna

Í greinargerð með framlögðu frumvarpi segir ma. „Lagabreytingin var þannig lögð fram í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu. Meðal annars var horft til þess að hér á landi yrðu um tvær milljónir ferðamanna á ári hverju. Nú er hins vegar staðan talsvert breytt vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Áhrifanna gætir víða en samkvæmt upplýsingum á vef Ferðamálastofu hefur erlendum gestum t.d. fækkað gríðarlega milli ára. Í samanburði við árið 2019 var fækkun erlendra gesta um 53% í mars, um 99% í apríl og maí, 97% í júní, 80% í júlí, 75% í ágúst og 95% í september. Í ljósi framangreinds er ljóst að eftirspurn eftir matvælum hefur dregist talsvert saman en innflutningur samkvæmt tollkvótum hefur á sama tíma haldist óbreyttur. Það er innlend matvælaframleiðsla sem tekur það högg og við því þarf að bregðast.“

Í samræmi við ályktun aðalfundar LK

Á aðalfundi Landssambands kúabænda 2020 var því beint til landbúnaðarráðherra að fallið yrði frá þeirri nýju úthlutunaraðferð á tollkvótum sem tók gildi um mitt þetta ár. Þegar innleiðing þess kerfis var í umræðunni vöruðu forsvarsmenn bænda mjög við því að það myndi veikja tollvernd innlendra búvara enn frekar, á sama tíma og tollkvótar væru að stóraukast. Verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt hefur lækkað um 75% frá ársbyrjun 2019 og með nýrri úthlutunaraðferð lækkaði verð um 40% frá fyrra útboði í ársbyrjun 2020. Verð á tollkvótum fyrir osta lækkaði um 5,5% frá fyrra útboði í byrjun árs 2020 og hefur frá byrjun árs 2019 lækkað um 12%. Miklar verðlækkanir hafa dunið á íslenskum nautakjötsframleiðendum á sama tíma og ef fer sem horfir er hætta á að sá árangur sem náðst hefur í greininni undanfarin ár verði fyrir bí.

Frá ársbyrjun 2018 hafa tollkvótar ESB fyrir nautgripakjöt aukist úr 100 tonnum í 647 tonn og munu fara í 696 tonn við næstu áramót. Frá ársbyrjun 2019 hefur verð á tollkvótum farið úr 797 krónum í 200 krónur. Við upptöku hollensku leiðarinnar fór verðið úr 331 krónu í 200 krónur. Tollvernd er því nánast að engu orðin. Í kjölfar úthlutunar tollkvóta með hollensku leiðinni um mitt ár 2020 lækkuðu allir sláturleyfishafar verð til bænda umtalsvert en mestu lækkanirnar numu um 30%. Augljóst er að slíkar verðlækkanir hafa umtalsverð áhrif á afkomu kúabænda. Þá lækkaði verð á tollkvótum fyrir osta úr 719 krónum í ársbyrjun 2020 í 680 krónur við síðustu úthlutun en í byrjun árs 2019 var verð á tollkvótum fyrir osta 774 krónur.