Beint í efni

Lágt heimsmarkaðsverð á smjöri og undanrennudufti

06.02.2009

Heimsmarkaðsverð á smjöri og undanrennudufti hefur farið stöðugt lækkandi að undanförnu. Lætur nærri að það aafi lækkað um helming á einu ári. Þess skal þó getið að verð á undanrennudufti náði áður óþekktum hæðum um mitt ár 2007, 5.000 USD/tonn og smjörverð fór í tæpa 4.000 USD/tonn í árslok 2007 og svo aftur um mitt síðasta ár. Í janúar sl. var verðið 1.700-1.800 USD/tonn.

Í Dairy Industry Newsletter er haft eftir heimildarmönnum hjá Fonterra á Nýja-Sjálandi, sem eru með u.þ.b. 40% af heimsmarkaði þessara vara, að þeir búist við að verðið hafi nú náð lágmarki. Framboð fari alls staðar minnkandi, enda eigi mjólkurframleiðslan víða í erfiðleikum. T.d. er bent á að verðhlutfall mjólkur og fóðurs í Bandaríkjunum sé nú komið niður í 1,69 sem sé það lægsta í sögunni, en bandaríska landbúnaðarráðuneytið hafi reiknað þetta hlutfall í 50 ár. Sérfræðingar segja að hlutfallið verði að vera 3,0 eða hærra til að mjólkurframleiðslan þar í landi skili arði.