
Lágmarksverð mjólkur til bænda hækkar!
04.04.2023
Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur.
Eftirfarandi verðbreyting mun taka gildi þann 1. apríl 2023:
Lágmarksverð 1.fl. mjólkur til bænda hækkar um 4,33%, úr 119,77 kr./ltr í 124,96 kr./ltr.
Eftirfarandi verðbreyting mun taka gildi þann 12. apríl 2023:
Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar almennt um 3,60%.
í tilkynningunni kemur jafnframt fram að verðhækkunin sé til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun í desember 2022. Frá síðustu verðákvörðun til marsmánaðar 2023 hafa gjaldaliðir í verðlagsgrundvelli kúabús hækkað um 4,33%.
Á sama tímabili hefur vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkað um 2,74% og er þetta grundvöllur hækkunar heildsöluverðs auk hækkunar á afurðaverði.
Á fundi nefndarinnar var einnig staðfest efnainnihald viðmiðunarmjólkur lágmarksverðs til framleiðenda skv. 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993.
Miðað er við meðalefnainnihald mjólkur síðustu þrjú ár og var niðurstaða útreikninga að viðmiðunarinnihald mjólkur sé 4,23% fita og 3,40% prótein.
Endurskoðun verðlagsgrundvallar var einnig til umfjöllunar á fundinum og var samþykkt að beina því til ráðuneytisins að ganga til samninga við Hagfræðistofnun HÍ um að endurskoða verðlagsgrundvöllinn. Fram kom í umræðum að nefndin teldi mikilvægt að henni yrði haldið upplýstri um framgang verkefnisins og að sérstakir fundir yrðu haldnir með verksala á meðan verkefninu stæði. Verklok eru áætluð í árslok 2023 en á fundinum kom fram vilji til að flýta verkefninu eins og kostur er.
Að lokum voru tvö erindi frá Bændasamtökunum lögð fyrir verðlagsnefnd en þau fjölluðu um að verðlagsnefnd meti framleiðslukostnað fyrir meðalbú í sauðfjár- og nautgriparækt. Ekki er um að ræða tillögu um opinbera verðlagningu heldur eins konar verðlagsgrundvöll til mats á framleiðslukostnaði. Umræður voru um óviðunandi afkomu í þessum greinum og að slík reiknilíkön væru gagnleg. Samþykkt var að formaður myndi beina erindunum til ráðuneytis.