Beint í efni

Lætur kýrnar liggja í mykjuhrati

01.09.2010

Frá árinu 2005 hefur fyrirtækið FAN í Þýskalandi verið að þróa sérstaka mykjuskilju sem er svo öflug að hratið úr henni er nýtanlegt sem undirburður undir kýr, en tækið verður kynnt á Agromek núna í nóvember. Þó það hljómi líklega ekki sérlega vel að láta kýrnar liggja í eigin afurðum, ef svo má að orði komast, þá er í raun hægt að bæta velferð kúnna með því að nýta hratið með þessum hætti. Tækið ræður við mjög breytilega mykju allt frá 0,1% af þurrefni upp í 20% þurrefni og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins (sem er hluti af Bauer samsteypunni) hentar skiljan ekki eingöngu fyrir kúabú heldur einnig loðdýra- og svínabúum. Svend Aage Jensen, sem er danskur kúabóndi og 

umboðsaðili FAN í Danmörku, hefur nú um hríð notað tækið á sínu kúabúi með góðum árangri að eigin sögn og það sérstaklega með að þurfa ekki að kaupa rándýran undirburð.

Kosturinn við þetta kerfi er jafnframt sá að í Evrópusambandinu eru gerðar sérstakar kröfur um hektarafjölda m.v. útkeyrslu á mykju. Með því að fjarlægja úr henni vatnið duga þannig mun færri hektarar fyrir hvert bú en annars þyrfti.

 

Mykjuskiljuna má fá sem færanlega einingu og stendur dönskum kúabændum til boða að fá skiljuna í vinnu heim á sitt bú. Hvort slíkt yrði hægt hér á landi vegna regluverks um sauðfjárveikivarnarlínur er óvíst, en tæknin er áhugaverð fyrir því.

 

Nánari upplýsingar:

www.maskinbladet.dk

www.fan-separator.com