
Lækkar verðið örugglega?
23.06.2009
Fréttastofa Ríkissjónvarpsins hefur að undanförnu fjallað um ýmsar hliðar Evrópusambandsins og áhrif hugsanlegrar aðildar að því fyrir íslenskt samfélag. Á sunnudaginn var komið að neytendamálum og reynt að draga upp mynd af því hvaða áhrif aðild að ESB hefði á verðlag og vexti. Það var að mörgu leyti ágæt umfjöllun en fréttamaðurinn datt hins vegar í sama pytt og margir aðrir sem fjallað hafa um þetta mál að undanförnu.
Í upphafi fréttarinnar var rætt um áhrif þess á verðlag matvæla hér á landi ef tollar á innfluttum matvælum verða lagðir af. Eins og svo oft áður var vitnað í tvær skýrslur sem báðar sýna verulegan mun á matarverði hér og í Evrópusambandinu. Gallinn við þessar skýrslur er sá að önnur þeirra er fimm ára gömul og hin kom út snemma árs 2008, en byggðist á verðlagi ársins 2006. Eins og allir vita sem fylgst hafa með heimsmálunum undanfarin misseri eru þessar skýrslur orðnar algerlega úreltar.
Í fyrsta lagi urðu stórkostlegar hækkanir á verðlagi landbúnaðarafurða og aðfanga til landbúnaðar á árunum 2007-2008. Þær gengu síðan til baka, en þó ekki nema að hluta. Verðlag á matvælum í heiminum er enn talsvert hærra en það var árið 2006 og ef marka má skrif í erlendum blöðum eru afar litlar líkur á að það lækki meira á næstunni. Þessar hækkanir höfðu nokkur áhrif hér á landi, en þó urðu verðhækkanir á innlendum matvælum hvergi nærri eins miklar og víða í nágrannalöndum okkar.
Í öðru lagi vantar inn í báðar þessar ágætu skýrslur gengisþróunina eins og hún hefur verið frá því snemma árs 2008. Fram að því var gengi íslensku krónunnar mjög hátt, óeðlilega hátt, segja flestir. Það leiddi til þess að samanburður á verðlagi hér á landi og í Evrópu sýndi að það var miklu hærra hér en þar. Nú er þetta gerbreytt eins og lítil könnun sem Bændablaðið gerði í vetur sýndi glöggt. Þegar bornar voru saman nokkrar algengar vörur í fimm evrópskum borgum kom í ljós að verðið á þeim var litlu hærra í Reykjavík en í Barcelona þar sem það var lægst. Í Berlín, Kaupmannahöfn og Osló var verðið hærra.
Kaupmátturinn gleymist
Við þetta má svo bæta því að þegar borið er saman matarverð hér á landi og í Evrópu eða Bandaríkjunum gleymist yfirleitt að taka kaupmátt launa með í reikninginn. Eins og allir vita er verðlag á búvörum hátt í Noregi, en samt eru Norðmenn fljótari en flestar aðrar þjóðir að vinna fyrir mat sínum. Norsku bændasamtökin hafa um árabil gert könnun þar sem borið er saman verð á tiltekinni matarkörfu í tæplega 20 Evrópuríkjum og Bandaríkjunum. Þegar litið er á verðið eitt og sér er Noregur hæstur. En þegar athugað er hversu lengi iðnaðarmaður á meðallaunum er að vinna fyrir þessari körfu eru Þjóðverjar og Hollendingar einu þjóðirnar sem eru fljótari en Norðmenn að vinna fyrir körfunni. Þær þjóðir sem þurfa að vinna lengst til þess að eiga fyrir körfunni eru í Austur-Evrópu, næst koma Spánn og Bandaríkin.
Því miður nær þessi könnun ekki til Íslands, hér vantar tilfinnanlega nýjar rannsóknir á þróun verðlags. Það blasir hins vegar við að útreikningar sem miðast við þriggja ára gamlar tölur eða þaðan af eldri segja afar lítið um ástandið eins og það er nú. Þess vegna er mjög varasamt að fullyrða neitt um það hvort verðlag hér á landi myndi hækka eða lækka ef ákveðið verður að ganga í Evrópusambandið. Við vitum það einfaldlega ekki.
Það er hins vegar umhugsunarefni hvers vegna fræðimenn sem eiga að vita betur endurtaka í sífellu niðurstöður úr skýrslum, sem þeir vita að standast ekki tímans tönn, án þess að minnast á gerbreyttar forsendur. /ÞH
Sjá umfjöllun RÚV í fréttatíma sunnudaginn 21. júní > Skoða