Beint í efni

Lækkandi kostnaður við innflutning nautgripakjöts skilar sér ekki til neytenda

14.10.2020

Um mitt ár 2018 tók nýr tollasamningur Íslands við Evrópusambandið gildi en Ísland úthlutar tollkvótum frá ESB, WTO og EFTA.  Frá gildistöku nýs samnings hefur kvótinn frá ESB svæðinu farið úr 100 tonnum á ári í 547 tonn í ár og stækkar um önnur 149 tonn á næsta ári og verður þar með 696 tonn fyrir nautgripakjöt. Að EFTA og WTO tollkvótum meðtöldum hefur heildartollkvóti nautgripakjöts þannig farið úr rúmum 200 tonnum í ársbyrjun 2018 í 800 tonn í ársbyrjun 2021.  Þetta er aukning á tollkvóta fyrir nautgripakjöt um 300%.

Ef skoðað er CIF verð (aðfangaverð komið til Íslands með flutningsgjöldum) sést að frá ársbyrjun 2018 hefur CIF verðið farið hækkandi.  Ef flokkarnir annað nautgripakjöt í innfluttu kjöti er talið með hakki sem hakkefni og vöðvar flokkaðir saman þá lítur þróunin frá því nýr tollasamningur tók gildi svona út:

Ef rýnt er í þessa mynd má sjá að brotalínurnar, sem eru leitnilínur verðsins, eru á uppleið.  Það þýðir að CIF verðmæti allra flokka hefur verið á uppleið frá ársbyrjun 2018, ef sveiflurnar eru teknar út.  Á sama tíma hefur meðalafurðarverð í Evrópu (í flokki UN R3 sem er viðmiðsflokkur og gefinn út reglulega af ESB til að fylgjast með verðþróun*) lækkað um 11,5% eftir að hafa náð hámarki um áramót 2017/18.  Aftur á móti hefur gengisvísitalan versnað um 28,4% á sama tíma þannig að verðlækkanir í Evrópu skiluðu sér ekki hingað nema með því að milda hækkun á innflutningi sem annars hefði orðið meiri.  Niðurstaðan er þannig að aðfangaverð innflutts nautgripakjöts til Íslands hefur farið hækkandi frá janúar 2018.

Þegar hins vegar er tekið tillit til þess að verð á tollkvótum frá ESB hefur lækkað um 75% á sama tímabili og það reiknað með sést að leitnin snýst við.  Nú leitar verð niður á við sem þýðir að verðlækkun tollkvóta hefur þrýst verðinu niður. Raunstaðan er því þannig að frá janúar 2018 hefur heildarkostnaðarverð á innfluttu kjöti sem flutt er inn innan tollkvóta lækkað.

Samkvæmt undirvísitölu Hagstofunnar hefur verð á nautakjöti, fersku eða frosnu, hins vegar hækkað um 6,5% á sama tíma, frá janúar 2018 til ágúst 2020.

Af þessu má sjá að þrátt fyrir verðlækkanir á innflutningi, sem sannanlega hefur átt sér stað sökum aukningar á tollkvóta frá ESB og lækkun á verði þeirra, sem og þá miklu verðlækkun sem nautgripabændur hafa þurft að taka á sig á þessum tíma, hefur verð vísitala nautakjöts hækkað. Með öðrum orðum virðist sem lægri kostnaður við innflutning nautgripakjöts hafi ekki skilað sér til neytenda, heldur einungis haft neikvæð áhrif á afkomu bænda. Enn frekari aukning á tollkvóta um næstu áramót, ásamt því að ýmislegt bendir til þess að kvóti þessa árs nýtist mögulega ekki til fulls hjá öllum innflytjendum, mun verð á tollkvóta væntanlega lækka enn frekar um komandi áramót. Sú lækkun mun vafalítið þrýsta enn frekar á afurðarverð til bænda innanlands.  Því verður að skoða og meta stöðuna með það að leiðarljósi og ljóst að bregðast verður við ef ekki á illa að fara í íslenskri nautakjötsframleiðslu. /HS