Lægri frumutala létti lundina
07.06.2010
Í fagblaðinu Kvæg Nyt nr. 11 í ár er áhugavert viðtal við danskan bónda sem átti í vandræðum með mjög háa frumutölu. En eftir að hafa náð að lækka meðaltalið úr 400.000 í 150.000 segir bóndinn að honum líði sjálfum mun betur. Aðspurður telur hann skýringuna fólgna í lægri útgjöldum vegna dýralækna og auknar tekjur vegna úrvalsmjólkurgreiðslu. Lausleg þýðing
viðtalsins við Allan Jensen, bónda á Haurbak Vestergård, fylgir hér með.
Lægri frumutala létti lundina
Eftir töluverða vinnu hefur það nú tekist eigendum og starfsmönnum á búinu Haurbak Vestergård I/S að ná frumutölunni niður úr um 400.000 í um 150.000. Helsti ávinningurinn er betri vinnustaðaumhverfi.
Vissulega yljar það manni að vita af bónusgreiðslum fyrir úrvalsmjólk og mun lægri dýralæknakostnaði. En fyrir bóndann Allan Jensen snýst þetta þó ekki eingöngu um krónur og aura heldur ekki síður um þá staðreynd að fjósið er nú betri vinnustaður og hvatinn til að gera betur er til staðar, nú þegar heilbrigði dýranna er orðið gott.
„Síðustu árin höfum við legið í kringum 400.000 frumur sem er allt of hátt. Þessvegna ákváðum við að gera eitthvað í málinu og við höfum sér í lagi náð árangri síðasta hálfa árið“, segir Allan.
Það eru nokkur atriði sem Allan bendir á sem skýra lækkaða frumutölu. Ein helsta skýringin er fjölgun kýrsýna, en eftir að hann fór að taka miklu oftar sýni úr kúm sem voru háar – tókst honum mun betur að ná tökum á vandamálinu.
Önnur skýring Allans eru kaup hans á mjaltaþjónum, sem er nokkuð ólíkt því sem almennt er talað um í Danmörku, þar sem mjaltaþjónafjós eru með þeim hæstu í frumutölu að meðaltali. Áður voru kýrnar mjólkaðar tvisvar á dag en nú eftir hentugleika og undir góðu eftirliti gengur þetta mjög vel.
„Mér finnst kýrnar mun rólegri enda eru þær ekki lengur þvingaðar í mjaltir tvisvar á dag, né heldur þurfa þær að bíða lengi á biðsvæði fyrir mjaltir. Þá er það staðreynd að mjaltaþjónarnir vinna nánanst alltaf eins við mjaltirnar sem þýðir að meðhöndlun júgursins er alltaf lík“.
Þriðja skýring Allan er í klaufhirðunni. Ef klaufir eru í góðu lagi éta kýrnar meira og eru ekki eins órólegar. Þetta gerir það að verkum að júgurskaðar verða sjaldgæfari.
Fjórða skýringin er endurskoðun Allan á fóðruninni, en kýr í réttum holdum eiga mun auðveldara með að takast á við sýkingar í júgra en kýr í lélegum holdum. Af þessum sökum leggur Allan höfuðáherslu á eins fóður fyrir kýrnar allt árið um kring af bestu gróffóðurgerð. „Fóðrunarlagið þarf einnig að vera rétt. Sveiflur í gjafatímum og mismunandi aðferðir við gjafir gera kýrnar órólegri og það hækkar frumutöluna“, segir Allan.
Lausleg þýðing úr blaðinu Kvæg Nyt nr. 11/2010