Beint í efni

Kýrsýni til RM – öflugt hjálpartæki!

09.05.2006

Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknastofu mjólkuriðnaðarins eru nú tæplega 500 framleiðendur sem skila mjólkursýnum úr einstökum kúm til mælinga. Það eru því á þriðja hundrað mjólkurframleiðendur sem láta hjá líða að gera slíkt. Frumutala í tankmjólk hefur heldur farið uppávið á síðustu mánuðum og ef fer sem horfir gæti nokkur fjöldi framleiðenda lent í vandræðum í sumar, en frumutalan er alla jafna hæst yfir sumartímann.

Ljóst er að fá hjálpartæki eru jafn öflug í viðureigninni við frumutöluna og sýnataka úr einstökum kúm. Hún veitir framleiðendum gullvægar upplýsingar um hverja kú, bæði magn verðefna og frumutölu, auk fleiri þátta. Þá á RM heiður skilinn fyrir skjót skil niðurstaðna, en rannsóknastofan hefur markað sér þá stefnu að sýni sem henni berast eru mæld samdægurs. Auk þess að nýtast bændum að fullu við daglega bústjórn, nýtast upplýsingar sem aflað er á þennan hátt í ræktunarstarfinu við að bæta einhverja mikilvægustu eiginleika gripanna, afurðasemi og júgurhreysti.