Beint í efni

Kýrnar gleðja hina sjúku!

18.01.2014

Sjúklingar líknardeildar sjúkrahússins í Haderslev á Suður-Jótlandi í Danmörku hafa all óvenjulega nágranna á sumrin, en við hlið líknardeildarinnar er 15 hektara beitarsvæði Galloway nautgripa. Nautgripirnir eru í eigu Rasmus Skaus og hann segir að á vorin, þegar hann kemur með gripavagninn og sleppir nautgripunum á beitarsvæðið við líknardeildina, þá veiti það gleði og ánægju meðal hinna langt leiddu sjúklinga.

 

Landsvæðið er í eigu sveitarfélagsins og í stað þess að slá og hirða svæðið með tækjum og tólum hefur Rasmus verið fenginn, með stuðningi Evrópusambandsins, til þess að koma með gripi sína og halda svæðinu niðri með beit. Tilgangurinn er tvíþættur, þ.e. að sjá um umhirðu svæðisins en einnig að gefa fólki á líknardeildinni færi á því að njóta nærverunnar við holdanautin.

 

Sveitarfélagið hefur lagt malbikaða stíga frá líknardeildinni að beitarsvæðinu og gert þannig fólki, sem t.d. er bundið við hjólastól, fært að komast í návígi við gripina. Auk þess eru víða upplýsingaskilti með margvíslegum upplýsingum um nautakjötsframleiðslu. Sannarlega áhugavert framtak sveitarfélagsins og líknardeildarinnar/SS.