Beint í efni

Kýrnar gengu 10 kílómetra eftir morgunmjaltirnar!

30.09.2017

Það er ekki víst að margir hér á landi þekki til smábæjarins Entlebuch í Sviss en í þessum bæ, sem er skammt frá Luzern, búa rúmlega 3 þúsund manns. Entlebuch er ennfremur nafn á friðlandi UNESCO en til friðlandsins heyrir einstaklega fjölbreytt náttúra. Um síðustu helgi söfnuðust íbúar Entlebuch saman til árlegrar hátíðar og þar voru kýr í aðalhlutverki. Það hefur nefninlega skapast sú einstaka hefð að þegar sumarbeit í Ölpunum líkur þá rölta kýrnar, ásamt prúðbúnum bændum og búaliði, fylgtu liði frá beitarsvæðunum í 1.200 metra hæð fyrir sjávarmáli og niður í dalinn við Entlebuch þar sem þær eru haldnar í fjósum yfir vetrartímann.

Leiðin liggur um sjálfan miðbæ Entlebuch og þar er þeim fagnað af heimafólki sem setur ekki fyrir sig að heilu göturnar séu lokaðar, og eftir því sem líður á daginn, skreyttar með kúadellum! Þess í stað er þessi árlegi viðburður tilefni mikilla hátíðarhalda í bænum og nota heimamenn tækifærið til þess að vera með allskonar uppákomur samhliða kúarekstrinum. Þar á meðal eru tónleikar lúðrablásara, jóðlandi kórar og annað slíkt sem heyrir til í svissnesku Ölpunum.

Í ár voru það 276 kýr sem röltu þessa leið, alls um 10 kílómetra, og voru þær skreyttar miklum blómaskreytingum í tilefni dagsins, auk þess sem flestar þeirra báru miklar kúabjöllur með tilheyrandi hávaða. Greinarskrifari hefur ekki fundið myndband af þessari uppákomu í ár en með því að smella hér má sjá dæmi um hvernig þessi dagur fór fram í fyrra/SS.