Beint í efni

Kýrnar fóru heilt maraþon!

14.08.2014

Markaðsfólk tekur upp á ýmsu og lætur sér detta margt í hug svo ná megi athygli fólks en að láta kýr fara heilt maraþon svo ná megi til almennings er eitthvað alveg nýtt. Þetta var þó gert í sumar í Austurríki en þar í landi hefur sala á lífrænni mjólk gengið heldur treglega undanfarið. Samtök lífrænna bænda ákváðu því að fara í efna til keppni meðal kúa landsins í maraþoni en keppnin gekk út á það að finna hvaða kýr myndi fyrst ná að leggja að baki 42 kílómetra.

 

Markmiðið með uppátækinu var vissulega að benda neytendum á að kýr sem framleiða mjólk sem er lífrænt vottuð fá að fara út á meðan ekki er skilda að setja aðrar kýr út. Svo var notast við skrefamælingabúnað til þess einfaldlega að finna kýr sem gengu mest! Bændur skráðu kýr til keppni og svo gátu neytendur fylgst með því hvernig kúnum gekk að rölta um þessa 42 kílómetra. Ekki fylgir sögunni hver það var sem var fyrst í „mark“/SS.