
Kýrnar fá kökur og sætabrauð!
11.07.2018
Írska fóðurfyrirtækið Sean Tully Animal Feeds er ekki það sem kalla mætti hefðbundið fóðurfyrirtæki en það hefur sérhæft sig í því að framleiða fóðurbæti fyrir kýr sem m.a. er unninn úr matarafgöngum frá bakaríum og stórverslunum! Það er sér í lagi sérhæfingin í nýtingu á kökum og sætabrauði sem hefur vakið athygli á fyrirtækinu, en því hefur tekist að finna leið til að staðla framleiðsluna þannig að prótein og þurrefnisinnihaldið helst jafnt í fóðurbætinum.
Mikil eftirspurn er meðal kúabænda í fóðurbætinn og þess utan, með notkun á honum, hækkar sjálfbærnistuðull búanna þar sem þau taka þátt í nýtingu matarafganga í stað þess að nýta kornið beint. Nú er svo komið að fyrirtækið nær vart að anna eftirspurn og fær því nú aðföng víða að úr Stóra-Bretlandi/SS.