Beint í efni

Kýrin með „brjóstamjólk“

10.08.2012

Sjötta apríl í fyrra fæddist kvígan Rosita ISA í Argentínu en Rosita ISA þessi er engin venjuleg kvíga. Hún er nefninlega erfðabreytt af vísindamönnum við rannsóknarstofnun landbúnaðarins í Argentínu (INTA) og það sem er óvenjulegt við hana er að hún er með tvö mennsk gen sem gera það að verkum að mjólkin frá henni inniheldur allt aðrar próteingerðir en hefðbundin kúamjólk.
 
Þrátt fyrir að vera aðeins 15 mánaða gömul núna er hún byrjuð að mjólka og er nú staðfest að mjólk hennar inniheldur tvær próteingerðir sem eru í mjólk kvenna: Lactoferrin og Lysozym en þessi prótein verja ungabörn gegn sýkingum af völdum baktería og vírusa. Vísindamenn INTA telja að þetta verkefni þeirra eigi eftir að gagnast í framtíðinni, sér í lagi þeim börnum sem ekki taka brjóst. Það er þó enn nokkuð í það að mjólk sem þessi fáist keypt, því enn á eftir að rannsaka mjólkina mun betur til þess að tryggja að hún sé hæf til neyslu. Þess utan má búast við afar ólíkum skoðunum á því hvort heimila eigi sölu á dýraafurðum frá skepnum sem eru með erfðaefni úr fólki, sem og því að heimila yfirhöfuð með slíkar skepnur.
 
Sé einhver að velta því fyrir sér hvernig hún Rosita ISA getur mjólkað einungis 15 mánaða gömul, þá var mjólkurframleiðsla hennar sett af stað með hormónagjöf sem er nú í raun lítið inngrip í náttúruna miðað við það sem á undan er gengið eins og hér að framan segir/SS.