
Kýr þurfa góðan svefn
02.01.2017
Svo kýrnar framleiði nægt magn mjólkur þurfa þær að liggja all stóran hluta af deginum til þess að jórtra en þess utan þurfa þær einnig að sofa vel, en það er amk. skoðun tveggja vísindamanna frá Tennessee í Bandaríkjunum en þeir hafa skoðað sérstaklega svefnvenjur og svefnþarfir mjólkurkúa. Þegar kýr sofa djúpsvefni, eða sk. REM svefni, slaknar á vöðvum líkamans og oftast hreyfast augun undir augnlokunum nokkuð ört sem gefur til kynna þetta svefnástand.
Þegar djúpsvefn á sér stað fer fram mikilvægt ferli í líkamanum svo sem uppbygging mótefnasvörunar líkamans. Kýr sem ná að hvílast vel og rétt geta með öðrum orðum betur varist sýkingum en kýr sem ekki hvílast vel. Benda vísindamennirnir á það í grein, sem birtist í tímaritinu Hoards Dairyman, að þessar niðurstöður geti nýst við að hanna nærumhverfi kúa enn betur í framtíðinni enda skiptir máli að fjósið sé þannig innréttað að allar kýr geti náð því að hvílast vel/SS.