Kýr þurfa að halda holdum í geldstöðunni
16.10.2015
Kýr sem missa hold síðustu vikurnar í geldstöðunni eiga frekar á hættu á að veikjast á mjaltaskeiðinu sem á eftir fylgir og eru með lélegri frjósemi, en þær kýr sem halda holdum í geldstöðunni. Þetta sýnir niðurstaða rannsóknar sem greint var frá á ársfundi ADSA (American Dairy Science Association) í sumar. Rannsóknin var gerð í Wisconsin þar sem vísindamenn fylgdust með 645 kúm síðustu þrjár vikurnar fyrir burð og fyrstu fjóra mánuðina eftir burð.
Kýrnar voru allal holdastigaðar og svo, eftir burð, skipt í þrjá hópa eftir því hvernig holdastig þeirra hafði þróast í geldstöðunni. Í einum hópnum voru kýr sem töpuðu 0,5 holdastigum, í öðrum þær sem höfðu tapað 0,25 holdastigum og þeim síðasta þær kýr sem stóðu í stað í geldstöðunni. Síðan voru skráð niður öll tilfelli súrdoða, doða, fastra hilda, legsnurðu, júgurbólgu og lungnabólgu hjá öllum kúm í öllum hópum í áðurnefnda fjóra mánuði.
Í ljós kom að 17% fleiri kýr í hópnum sem töpuðu mestum holdum voru með skráð eitt sjúkdómstilfelli eða fleiri samanborið við kýrnar í hópnum sem tapaði ekki holdum/SS.