Kýr með SARA gráðugri
21.11.2015
Sjúkdómurinn SARA, sem á íslensku mætti einfaldlega kalla dulinn súrdoða (Sub-Acute Ruminal Acidosis), hefur á liðnum árum fengið aukna athygli og við höfum einnig fjallað um þennan leynda sjúkdóm áður hér á naut.is (sjá hér). Nú hefur ný rannsókn frá Kanada, sem greint var frá í sumar á ársfundi ADSA (American Dairy Science Association), sýnt að kýr sem hafa tilhneigð til þess að fá dulinn súrdoða éta ferskt fóður í lengri tíma og ekki eins jafnt og þær sem ekki hafa þessa tilhneigð.
Til raunin var gerð á tveimur hópum af Holstein kúm og var settur sýrustigsmælir í vömb þeirra og fylgst með áthegðun og átgetu. Í ljós kom að kýrnar voru með mjög áþekka átgetu og innbyrtu jafn mikið af fóðri. Sumar kýrnar, sem flokkaðar voru sem kýr með dulinn súrdoða, átu hins vegar mjög ójafnt yfir daginn og þegar gefið var ferskt fóður hámuðu þær það í sig í meira mæli en aðrar kýr. Fyrir vikið sveiflaðist sýrustig vambarinnar hjá þeim meira en hjá hinum. Þessar kýr voru t.d. á tímabili yfir sólarhringinn með sýrustig í vömb sem var lægra en pH 5,8. Þær kýr sem ekki voru með tilhneigingu til dulins súrdoða átu mun jafnar yfir daginn og minna í einu.
Þegar áttímabili sólarhringsins var að verða lokið og stutt var í næstu gjöf vörðu kýrnar með tilhneigingu til dulins súrdoða einnig mun skemri tíma við fóðurganginn en hinar kýrnar eða 19 mínútur samanborið við 43 mínútur. Út frá þessari niðustöðu má ætla að hægt sé að finna kýr sem hafa tilheigingu til dulins súrdoða og/eða með dulinn súrdoða og þannig mögulega meðhöndla þær/SS.