Kýr á beit með ólíka fóðurnýtingu
16.11.2015
Nýsjálenskir kúabændur beit kúm árið um kring og því er þeim enn mikilvægara en öðrum bændum að vera með sérstaklega ræktaðar beitarkýr. Í tilraun þar í landi, sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science í september, kom í ljós að kýr sem eru erfðalega séð með betri fóðurnýtingu en aðrar kýr eru einnig mun ákveðnari á beit, eru minna að rölta um túnin og jórtra jafnframt fóðrið betur en hinar kýrnar.
Um var að ræða framhaldsrannsókn á fóðurnýtingu hjá kvígum en á uppeldistímanum kom berlega í ljós að mikill munur er á einstökum gripum. Kvígunum var skipt í tvo hópa, annan með lélega fóðurnýtinu og hinn með góða fóðurnýtingu. Þegar kvígurnar svo báru og var beitt á túnin gengu nýbærurnar með betri fóðurnýtinguna mun færri skref en hinar og þegar þær gengu héldu þær sig að beitinni. Ennfremur voru þær aðgangsharðari á morgnana við beit, en hinar með slakari fóðurnýtinguna, þegar þær voru settar á nýtt beitarstykki og nýttu tímann heldur seinnipartinn í að jórtra. Þær jórtruðu einnig betur, þ.e. tuggu oftar hverja fóðurkúlu, og skilaði það sér alla leið í gegnum þær enda var mun minna af ómeltu fóðri í skít þeirra en hinna.
Þessi niðurstaða gefur tilefni til þess að ætla að með erfðvavísaprófunum megi rækta upp sérstaklega góðar kýr fyrir bændur sem byggja afkomu sína að megninu til á beit/SS.