Beint í efni

Kyngreint sæði – Skýrsla RML

10.03.2023

Á Búgreinaþingi Nautgripabænda fyrir rúmu ári síðan var því beint til stjórnar Nautgripabænda að athuga hvert hagræðið yrði af kyngreiningu á sæði og leita leiða til að framkvæma og fjármagna verkefnið.

Í kjölfarið ákvað stjórn deildarinnar að leita til fagráðs í nautgriparækt og RML um áframhaldandi skref verkefnisins. Á fundi fagráðs þann 7. apríl 2022 var ákveðið að RML skyldi skoða málið áfram, t.d. með því að leita eftir fjármagni úr þróunarsjóði til úttektar á möguleikum og ávinningnum af kyngreiningu sæðis hérlendis. Var það gert og hefur Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur hjá RML nú skilað af sér skýrslunni en þróunarsjóður nautgriparæktarinnar styrkti verkefni.

Í skýrslunni er gert grein fyrir því hvað kyngreint sæði sé, hvernig er staðið að framleiðslu þess og notkun - og svo möguleikum og áskorunum við að innleiða tæknina hér á landi.

Kyngreining á sæði er ekki einfalt verkefni. Fjölmörgum spurningum er ósvarað, t.d. er óljóst hvort sæði úr íslenskum nautum henti til kyngreiningar, þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að sú sé raunin. Það þarf t.d. að skoða og rannsaka betur.

Stofn- og rekstrarkostnaður er áætlaður gróflega í skýrslunni en gefur lesendum hugmynd um hvaða tölur gæti verið að ræða. Nauðsynlegt að meta þennan kostnað mun ítarlegar en í skýrslunni kemur fram að áætlaður stofnkostnaður gæti numið 182-183 milljónum króna og árlegur rekstrarkostnaður nálægt 82 millj. kr. eða um 3.300 kr. á sæðisskammt miðað við 25 þús. skammta á ári. Tekið er fram að eftirspurn og notkun á kyngreindu sæði muni ráða miklu um hvert endanlegt verð á hvern skammt þarf að vera til að standa undir kostnaði.

Tölur um afköst tækninnar eru byggðar á haldgóðum upplýsingum en útfærsla á hvernig staðið verður að kyngreiningunni sjálfri í takti við sæðistöku og dreifingu er eitthvað sem þarfnast ítarlegri skoðunar og nákvæmari útfærslu. Um er að ræða mikla fjárfestingu sem er ekki bundin við aðstöðu og tækjabúnað heldur þarf fjárfesting í þekkingu og þjálfun að koma til. Það er því mjög mikilvægt að vanda vel til verka og undirbúa verkið af mikilli kostgæfni. Húsnæði er til staðar en þekking, þjálfun og mannauður ekki.

Niðurstaðan er þó sú að það er vel framkvæmanlegt að innleiða kyngreiningu á nautasæði á Íslandi og það ætti ekki að raska neinum ytri framleiðsluskilyrðum í rekstri kúabúa né ræktunarstarfinu. Þvert á móti ætti nautgriparæktin að geta sótt þó nokkra hagræðingu í kyngreiningu á sæði. Skýrsluhöfundur mælir því eindregið með því að hafin verði vinna við innleiðingu kyngreinds sæðis þar sem vönduð innleiðingaráætlun, undirbúningsvinna og fjármögnun verði í algjörum forgangi, segir í niðurstöðukafla skýrslunnar.

Fagnar stjórn Nautgripabænda skýrslunni en hún er mikilvæg fyrir næstu skref. Jafnframt þökkum við Munda (Guðmundi Jóhannessyni) kærlega fyrir vel unna skýrslu!