Beint í efni

Kyngreining á sæði – af ársfundi Dansk kvæg

20.03.2007

Á ársfundi danskra kúabænda á dögunum, flutti doktorsneminn Jehan Ettema erindi um kyngreint sæði og efnahagslega þýðingu á notkun þess. Búnaðurinn sem notaður er til greiningarinnar kemur frá bandaríska fyrirtækinu XY inc. í Colorado.

Eins og mörgum er kunnugt, hefur verið boðið upp á kyngreint sæði á Bretlandseyjum frá árinu 2000. Nýlega var farið að bjóða þennan möguleika í Danmörku og fjallaði erindið um áhrif kyngreinds sæðis á efnhag búanna, að gefnum ákveðnum forsendum. Helstu forsendur voru mishátt hlutfall kvígna og kúa sem sæddar voru með kyngreindu sæði og hversu oft kæmi til greina að nota kyngreint sæði á hverja kú.

Helstu kostir kyngreiningar á sæði eru að með því má stytta ættliðabil og auka þannig árlega erfðaframfarir. Kyngreint sæði gerir það einnig að verkum að hægt er að stunda talsvert úrval í liðnum móðir-dóttir. Undanfarin ár hefur slíkt t.d. verið með öllu ómögulegt hér á landi, þar sem nánast allar lifandi fæddar kvígur hafa verið settar á til mjólkurframleiðslu. Einnig dregur kyngreint sæði úr kálfadauða og burðarerfiðleikum, einkum hjá 1. kálfs kvígum, þar sem hægt er að velja sk. „kvígunaut“ á þær, það er naut sem gefa heldur smávaxnari kálfa, að ógleymdu því mikilvæga atriði að kvígukálfarnir sem verið er að sækjast eftir eru alla jafna minni en nautkálfarnir og því auðveldara að bera þeim. Einn kostur enn er að hægt er að auka virði blendingskálfa (blendingar af holdakynjum og mjólkurkynjum), þar sem slíkir nautkálfar eru verðmætari en kvígukálfarnir.

Eins og önnur mannanna verk er þetta ekki gallalaust. Fyrir það fyrsta er verð á kyngreindu sæði mun hærra en því hefðbundna, kyngreindur skammtur kostar 250 dkk, meðan venjulegur kostar 80 dkk. Búnaðurinn kostar milli 30 og 40 milljónir og afkastar innan við 10 skömmtum á klukkutímann. Að auki hentar hann nær eingöngu þar sem notað er sk. biðnautakerfi, þar sem nautunum er haldið lifandi þar til að afkvæmadómur um þau liggur fyrir, þá er tekið sæði úr þeim er áhugaverð kunna að vera til frekari notkunar, hin eru felld. Búnaðurinn vinnur semsagt eingöngu með ferskt sæði. Þá er fanghlutfall talsvert lægra en með hefðbundnu sæði, talað var um fall upp á amk. 10%, úr 65% í 59% við fyrstu sæðingu á kvígum. Hér á landi er þetta hlutfall nokkuð yfir 70%. Þá er öryggið á kyngreiningunni 90%, það eru semsagt 10% líkur að kálfurinn sé ekki af því kyni sem óskað er eftir. Að lokum er ótalið það atriði að vegna lítilla afkasta, er unnið með miklu meiri þynningu en tíðkast alla jafna. Í kyngreindum sæðisskammti eru 2 milljónir sæðisfruma, í dönsku hefðbundnu sæði eru hins vegar 15 milljónir. Hér á landi eru svo aftur á móti 30 milljónir fruma. Fyrir 10 árum síðan var gerð hér tilraun með að þynna niður í 20 milljónir fruma, með þeim afleiðingum að fanghlutfall lækkaði til muna.

Helstu niðurstöður sem áðurnefndur Ettema kynnti í erindi sínu

byggðu á þeim forsendum að á 100 kúa búi væri 70% af kvígum sæddar að hámarki þrisvar með kyngreindu sæði og 36% af kúnum (lakasti þriðjungurinn) með holdanautasæði. Niðurstöðurnar voru að notkun á kyngreindu sæði hefði óveruleg áhrif á framleiðslutengda þætti, að framlegð ykist um 4 dkk á árskú. Þess bæri þó að geta að burðarerfiðleikar hjá kvígum minnkuðu um 20%, sem hefur jákvæð áhrif á dýravelferð og andlega líðan bóndans, sem er ekki síður mikilvæg en fjárhagslegir þættir. Megin niðurstaða erindisins er sú að hinn fjárhagslegi ávinningur komi nánast að öllu leyti fram í auknum erfðaframförum. Aukin framlegð vegna þeirra áhrifa er metin sem 147 dkk á árskú. Samanlögð framlegðaraukning vegna notkunar á kyngreindu sæði er því 15.100 danskar krónur á meðalbú, með 100 árskýr. Umreiknað í íslenskar krónur eru það um 180.000 kr m.v. gengi gjaldmiðilsins þegar þetta er ritað.

 

Skýringarmynd af tækninni sem notuð er við að kyngreina sæði. Sæðisfrumur með X litningi mynda kvenkyns fóstur, en Y litningurinn myndar karlkyns fóstur.