Beint í efni

Kynbótafyrirtækið VikingGenetics horfir til 2020

17.09.2015

Tíminn flýgur áfram og stöðugt styttist í árið 2020, en það ár var af mörgum sett sem einhverskonar markmiðsár t.d. varðandi mældan árangur. Afhverju 2020 hefur verið valið af svo mörgum felst nú líklega eingöngu í þessum tveimur tugum sem falla saman, en engu að síður má sjá mjög víða að sett hafa verið markmið í landbúnaði um heiminn allan, þar sem horft er til þessa árs. Reyndar vorum við hjá Landssambandi kúabænda svolítið öðruvísi og gerðum okkar áætlun til ársins 2021!

 

Hjá kynbótafyrirtækinu VikingGenetics, sem starfar víða á Norðurlöndum, hefur verið sett fram einkar áhugaverð áætlun fyrir árið 2020 en með áætluninni er horft til framfara í ræktuninni. Innan hvers aðildarlands VikingGenetics er sett sérstakt markmið og fyrir dönsku bændurna hafa eftirfarandi ræktunarmarkmið verið sett:

– að ná fram árlegri kynbótaframför um 3 NTM stig (norrænn stuðull sem tekur tillit til margra mismunandi kynbótaþátta) sem skili 3.300,- til 4.300,- króna framlegðaraukningu á ári pr. kú

– að bæta frjósemi um 10% á tímabilinu (5 árum) með aukinni skilvirkni

– að kynbótaframfarinar í heild tryggir einnig betri rekstur vegna afleiddra áhrifa sem nemi 5.750,- krónum á hverja kú á hverju ári

 

Vissulega einkar áhugaverð nálgun, þ.e. að setja krónur og aura á áhrif kynbótastarfsins/SS.