Beint í efni

Kvótaverðið tók stökk í Danmörku

12.11.2010

Nýverið lauk nóvembermarkaðinum í Danmörku með mjólkurkvóta og telst til tíðinda þaðan hve verðið hækkaði á tilboðsmarkaðinum og hve margir kúabændur tóku þátt. Jafnaðarverðið á kvótanum fór í 3,0 danskar krónur (u.þ.b. 62 Íkr), sem er nánast sama verðið að Arla greiðir bændum fyrir mjólkina og var þetta hækkun um heila 70 aura frá markaðinum í ágúst eða um nærri 15 íslenskar krónur.

 

Þessi hækkun kemur nokkuð á óvart, en skýringin vafalítið fólgin í því að svo virðist  

sem að mjólkurframleiðsla margra kúabúa stefni langt umfram kvóta. Í Danmörku er kerfið þannig, líkt og í flestum löndum Evrópusambandsins, að fari framleiðslan fram úr kvótamarki viðkomandi bús fær búið háar fjársektir eða um 2,07 Dkr á hvern lítra (u.þ.b. 42 Íkr)! Í ár er reyndar útlit fyrir að greitt verði fyrir mjólk umfram greiðslumark upp að 13,1% umfram greiðslumark (lækkar reyndar eitthvað þegar viðskipti markaðarins verða ljós) en dagljóst er að einhverjir lenda í sektum miðað við innvigtunartölur einstakra búa.

 

Alls tóku 32% allra kúabænda í Danmörku þátt í nóvembermarkaðinu, en á honum er síðasti möguleiki bænda að kaupa eða selja framleiðslurétt núverandi kvótaárs en því líkur í lok mars á næsta ári. Alls voru samþykkt viðskipti upp á 61 milljón kg í 1.060 viðskiptum en alls tóku 1.318 bændur þátt í markaðinum að þessu sinni.