Beint í efni

Kvótaverð hrynur í Danmörku

09.02.2009

Um nýliðin mánaðamót var kvótamarkaður haldinn í 31. skipti í Danmörku, frá því fyrirkomulagið var tekið upp þar í landi. Niðurstaða hans var lægsta verð frá upphafi, ca. 50 danskir aurar á kg, um 10 íslenskar krónur. Það er einungis þriðjungur af verðinu sem fékkst fyrir hann á nóvembermarkaðnum. 400 framleiðendur vildu selja 95.400 tonn en aðeins 130 vildu kaupa samtals 35.200 tonn. Þessi mikli munur á framboði og eftirspurn þrýstir verðinu lengra niður en nokkru sinni.

Kvótaverðið náði hámarki sumarið 2007, þegar eftirspurn á heimsmarkaði eftir mjólkurvörum var í hámarki, 4,63 dkk/kg. Síðan hefur það fallið um 90%.

 

Helsta orsök verðfallsins er endurskoðun landbúnaðarstefnu ESB (EU’s Sundhedstjek). Einn liður í henni er að mjólkurkvótinn verður aukinn um 1% þegar nýtt kvótaár hefst 1. apríl n.k. Þá hafa reglur um fituinnihald (mjólkurkvótinn er í raun fitukvóti) og offramleiðslusektir einnig verið endurskoðaðar. Vegna þessa verður hægt að auka framleiðsluna um 2,4% til viðbótar.

 

Formaður danskra kúabænda er lýsir ánægju sinni með að verðið hafi fallið svo mikið. Bændur taki greinilega mið af stöðunni eins og hún er, ekki sé útlit fyrir að framleitt verði umfram kvótann, hvorki í ár né á næsta ári. Verðfallið endurspegli einnig að sú stefna sem hafi verið mörkuð til að rýra virði kvótans þar til hann falli niður, virki vel.

 

Kvótaverð, m.v. 4,36% fitu – síðustu 8 markaðir DKK/kg
Maí 2007 4,14
Ágúst 2007 4,63
Nóvember 2007 2,81
Febrúar 2008 2,01
Maí 2008 2,05
Ágúst 2008 2,06
Nóvember 2008 1,55
Febrúar 2009 – bráðabirgðatölur 0,50-0,53

 

Heimild: www.mejeri.dk