Beint í efni

Kvótamarkaði með greiðslumark komið á og viðskipti óheimil til 1. des.

20.05.2010

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingar á aðilaskiptum á greiðslumarki í mjólk. Reglugerðarbreytingin hefur í för með sér að komið verður á kvótamarkaði sem Matvælastofnun (MAST) skal starfrækja.

Halda skal kvótamarkað tvisvar sinnum á ári, 1. júní og 1. desember og skal í fyrsta sinn halda slíkan markað 1. desember næstkomandi. Ekki verður heimilt að versla með kvóta utan markaðsins og þýðir þetta í raun að kaup og sala á greiðslumarki mjólkur verður óheimil frá og með 17. maí og til 1. desember næstkomandi.

Markmiðið með nefndum breytingum er að stuðla að réttlátari skiptingu af viðskiptunum með auknu gagnsæi, meira jafnvægi í verðum og jafnri stöðu kaupenda og seljenda varðandi upplýsingar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu. Jafnframt sé komið í veg fyrir að greiðslumarki á einstökum býlum sem eiga við fjárhagsvanda að etja verði ráðastafað þaðan án þess að búið sé að móta heildastæða stefnu í málaflokknum.

Markaðurinn á sér danska fyrirmynd og með honum á að ná því markmiði að viðskipti verði eingöngu á svokölluðu jafnvægisverði. Nánar er útskýrt í fréttatilkynningu, sem og í reglugerð hvernig slíkt jafnvægisverð er fundið.

Í fréttatilkynningunni kemur jafnframt fram að eindreginn vilji aðalfundar Landssambands kúabænda um kvótamarkað hafi ýtt á eftir reglugerðarbreytingunni. Þá er jafnframt nefnt að þörf sé á hefja umræðu og stefnumótun um mögulega hámarksbústærð og önnur framleiðsluskilyrði í ljósi annarra ályktana kúabænda.

Fréttatilkynningu ráðuneytisins ásamt reglugerðarbreytingunum má sjá hér.

Reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum.

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 648/2009, um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. september 2009 til 31. desember 2010.