Beint í efni

Kvótakerfi í Bandaríkjunum?

31.01.2011

The American Farm Bureau Federation (AFBF), stærstu heildarsamtök bandarískra bænda, hafa áratugum saman barist gegn framleiðslustýringu af hvaða tagi sem er. Svo virðist sem þar séu stefnubreytingar í farvatninu. Þetta kom fram á aðalfundi samtakanna, sem haldinn var 9.-12. janúar sl. í Atlanta í Georgíu. Samtökin segja nú að staðan á mjólkurverðinu og afkoma bænda, réttlæti að gripið verði til aðgerða sem dragi úr mjólkurframleiðslunni. „Við höfum horft uppá gríðarlegar sveiflur á mjólkurverðinu og undanfarin tvö ár hafa verið erfiðir tímar fyrir mjólkurframleiðsluna“, segir Bob Stallman, formaður AFBF. „Við getum ekki haldið áfram að gera sömu hlutina og búist við annarri niðurstöðu. Við þurfum stefnubreytingu í mjólkurframleiðslunni“. Í henni er gert ráð fyrir tímabundinni framleiðslustýringu en

samtökin eru þó áfram andvíg lögbundnu kvótakerfi eins og tíðkast víða annars staðar. Hún mun gera AFBF kleyft að vinna að nýjum lausnum í samvinnu með samtökum bandarískra mjólkurframleiðenda, National Milk Producers Federation. Þær lausnir eiga að miða að því að draga úr sveiflum á afurðaverði. Líklegt má þó telja að þrátt fyrir að lausnir af þessu tagi eigi að vera takmarkaðar í tíma, eigi þær eftir að vera fastari í sessi en mönnum grunar.  

 

Það kerfi sem hefur verið við lýði frá árinu 2002 nefnist MILC, Milk Income Loss Contract Program og byggir það á búnaðarlagasamningi (Farm bill) Bandaríkjaþings frá 2008. Samningur sá styður við mjólkurframleiðsluna með beinum greiðslum til bænda, ef mjólkurverðið fer niður fyrir tilskilin mörk sem eru 16,94 $ pr. 100 pund mjólkur, eða 42,11 kr pr. lítra. Bændum hafa með þessu tryggingu fyrir að afurðaverðið sé aldrei lægra en þetta.

 

Samningurinn tekur einnig á málum ef fóðurverð hækkar úr hófi, en þar vestra er það metið sem svo að fóðurkostnaður sé um 45% af framleiðslukostnaði mjólkurinnar. Þannig er bændum greiddur stuðningur ef verð á 16% kjarnfóðurblöndu er hærra en sem nemur 7,35 $ pr. 100 pund fóðurs, eða 18,86 kr/kg.

 

Stuðningur eftir MILC samningnum er ekki greiddur til búa sem framleiða árlega meira en 2.985.000 pund mjólkur, eða sem nemur 1.311.990 lítrum.

 

Heimildir: www.dairyindustrynewsletter.com

Heimasíða The American Farm Bureau Federation

Heimasíða National Milk Producers Federation

Heimasíða USDA, bandaríska landbúnaðarráðuneytið.