Beint í efni

Kviðdómur: 9 kýr sekar!

17.11.2017

Vestur í Bandaríkjunum er sú íþrótt stunduð títt að draga hvern annan fyrir dómara og láta skera úr um mál sem etv. oftar en ekki mætti leysa við kaffiborðið heima. Í liðinni viku kom eitt slíkt mál fyrir dómara og 12 manna kviðdóm en mál þetta snérist um það að 9 kýr höfðu sloppið út af kúabúi sínu og rölt yfir til nágrannans. Sá var heldur óhress með heimsóknina enda höfðu kýrnar verið svo ruddalegar að troða niður kálplöntur nágrannans og ofan í kaupið skitu þær þar einnig. Sjálfsagt væri þetta nú ekki sérstakur fréttamatur, ef ekki væri um lífrænt bú að ræða sem varð fyrir þessari heimsókn kúnna og þar sem þær náðu að skíta á akurinn má ekki nýta hann til lífrænnar framleiðslu í ákveðinn tíma. Tjónið er því mun alvarlegra en kann að virðast í fyrstu.

Bændurnir frá þessum tveimur búum reyndu að ná sáttum utan dómstóla en mikið bar á milli og fór málið því fyrir dómstóla. Í stuttu máli sagt voru kýrnar fundnar sekar um þetta ódæði og þarf nú eigandi þeirra að borga bæði skaðabætur og málskostnað að upphæð 26.500 dollara eða um 2,7 milljónum íslenskra króna/SS.