Kveiktu á perunni!
12.09.2012
Nú þegar dagurinn verður æ styttri er mikilvægt að huga að húsvistinni hjá kúnum. Eitt af því sem brýnt er að hafa í huga er lýsing hjá kúm, en allt of oft er lýsingu stórlega ábótavant eða hreinlega ekki nýtt í samræmi við þarfir kúnna. Nýleg sænsk rannsókn, sem reyndar var framkvæmd með svart-skjöldóttar kýr, sýndi fram á að með því að hafa 16 tíma lýsingu (150-200 lúx) hjá kúm á sólarhring mjólkuðu þær að jafnaði 2-3 kg meira á dag.
Niðurstöður tilraunarinnar sýndu einnig að geldneyti nýttu fóðrið betur við 16 tíma lýsingu og skilaði það sér eðlilega í meiri þroska. Lýsingu þarf hinsvegar að stýra því rannsóknin sýndi einnig að lýsingu á að takmarka hjá kúm í geldstöðu og hjá kvígum síðustu 2 mánuði fyrir burð og miða þar við 8 tíma á dag. Athygli vekur að sé þetta gert mjólka þær allt að 3-4 kg meiri mjólk á dag en þær sem fá meiri lýsingu síðustu 2 mánuðina fyrir burð.
Ástæða þess að lýsingin skiptir svona miklu máli er að sögn vísindamanna við sænska landbúnaðarháskólann áhrif á hormónastarfsemi kúa, sér í lagi áhrif á IGF1 og Prólaktín/SS.