Kvægkongres í dag og á morgun
29.02.2016
Hið árlega danska fagþing nautgriparæktarinnar hefst í dag í Herning en um er að ræða eitt stærsta fagþing nautgriparæktar sem haldið er í norðurhluta Evrópu ár hvert. Sem fyrr er það nautgriparæktarsvið ráðgjafafyrirtækisins SEGES sem stendur fyrir fagþinginu. Undanfarin ár hefur fjöldi erlendra gesta mætt á fagþingið og verður svo einnig í ár en alls hafa nærri 2.700 manns skráð sig til þátttöku á þessu tveggja daga fagþingi og er það nýtt aðsóknarmet.
Að þessu sinni verða haldnar ellefu ólíkar málstofur um hin fjölbreyttu málefni nautgriparæktarinnar en í ár verður lögð mest áhersla á fagleg erindi sem leiða til aukinnar hagkvæmni í bæði mjólkur- og kjötframleiðslu. Meðal áhugaverðra erinda má t.d. nefna „Svona bætum við samkeppnishæfnina“, „Lækkaðu framleiðslukostnaðinn“, „Veldu rétt mjaltakerfi“, „Lífræn framleiðsla, á ég eða ekki?“ og „Hraðaðu mjöltunum“ svo dæmi séu tekin. Alls verða haldin 69 mismunandi erindi á þessu fagþingi og verður því gerð skil í Bændablaðinu á komandi vikum að vanda. Þeir sem ekki geta beðið má benda á að það má bæði lesa útdrætti flestra erinda á heimasíðu fagþingsins: www.kvaegkongres.dk.
Ástæða er til þess, í þessu samhengi, að minna á okkar eigið fagþing sem haldið verður fimmtudaginn 31. mars næskomandi í húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar. Þar verða flutt mörg áhugaverð erindi og eru lesendur naut.is hvattir til þess að taka daginn frá enda er fagþingið opið öllu áhugafólki um nautgriparækt. Dagskrá fagþingsins okkar liggur fyrir á allra næstu dögum og verður hún kynnt hér á vefnum um leið og unnt er/SS.