Beint í efni

Kvægkongres í dag og á morgun

23.02.2015

Hið árlega danska fagþing nautgriparæktarinnar hefst í dag í Herning og er þess vænst að á þriðja þúsund manns mæti á þetta tveggja daga þing um málefni nautgriparæktarinnar. Fagþingið er reyndar einnig aðalfundur um leið fyrir nautgriparæktarsvið dönsku Bændasamtakanna og því fer nokkur hluti fagþingsins í umræður um málefni líðandi stundar, fyrirspurnir og kosningar. Það er óhætt að fullyrða að þetta fagþing sé með þeim betri sem haldin eru hér í norðurhluta Evrópu og sést það einna best á aðsóknartölum yfir erlenda gesti.

 

Að þessu sinni verða haldnar átta ólíkar málstofur um hin fjölbreyttu málefni nautgriparæktarinnar en þær eru: „rekstur og fjármál“, „stefnumörkun og bústjórn“, „fóður og fóðrun“, „kýrin og kálfurinn“, „frá bónda til bónda“, „kynbætur og kynbótastarf“, „mjólk og mjólkurgæði“ og „kjötframleiðsla“. Á þessum ólíku málstofum verða alls haldin 64 erindi, en sum þeirra eru flutt tvisvar svo þátttakendur geti náð að drekka í sig sem mest af þekkingu og upplýsingum. Þessu fagþingi verður gerð skil í Bændablaðinu á komandi vikum að vanda en þeim sem geta ekki beðið skal bent á að það má bæði lesa útdrætti flestra erinda á heimasíðu fagþingsins: www.kvaegkongres.dk.

 

Ástæða er til þess, í þessu samhengi, að minna á okkar eigið fagþing sem haldið verður fimmtudaginn 12. mars næskomandi í Íslenskri Erfðagreiningu. Þar verða flutt mörg áhugaverð erindi og eru lesendur naut.is hvattir til þess að taka daginn frá enda ef fagþingið opið öllu áhugafólki um nautgriparækt. Dagskrá fagþingsins okkar má lesa með því að smella hér/SS