
Kúnum að fjölga í Kanada
23.03.2018
Eftir nokkur mögur ár, með fækkun kúa í Kanada, hefur þeim nú fjölgað tvö ár í röð og voru kýrnar 972.300 um áramótin. Það er aukning um 27.300 kýr frá árinu 2016 eða 2,8%. Þetta eru gleðitíðindi fyrir þarlenda kúabændur og afurðastöðvar enda hefur kúm í landinu fækkað jafnt og þétt síðustu áratugi. Fyrir tuttugu árum var fjöldi þeirra 1,2 milljónir en aðeins átta árum síðar var fjöldinn kominn niður fyrir 1 milljón í fyrsta skipti síðan reglubundnar talningar hófust.
Þessi mikla fjölgun nú skýrist fyrst og fremst af aukinni sókn þarlendra afurðastöðva inn á alþjóðlega markaði og sjást í raun góð teikn á lofti um að kúnum muni fjölga enn frekar á þessu ári enda er töluverð fjölgun á skráðum kvígum í landinu. Það gæti því verið að um komandi áramót verði fjöldi kúa á ný verið komin yfir 1 milljón talsins. Þess má geta til samanburðar að sé horft suður til Bandaríkjanna þá er fjöldi kúa þar nærri 10 sinnum meiri en í Kanada og var fjöldi bandarískra kúa um 9,4 milljónir þegar síðast bárust fregnir af talningu þaðan/SS.