
Kúm snarfækkar í Nýja-Sjálandi
29.09.2016
Undanfarin tvö ár hefur kúm í Nýja-Sjálandi snarfækkað og er skýringin fyrst og fremst fólgin í lágu heimsmarkaðsverði. Alls hefur kúm í landinu fækkað um 300.000 á þessum örstutta tíma, þ.e. um tífaldan fjölda íslenskra kúa! Til þess að setja þennan fjölda í samhengi er um 6% fækkun kúa í Nýja-Sjálandi að ræða og er fjöldi þeirra nú talinn vera um 4,7-4,8 milljónir.
Þrátt fyrir þessa miklu fækkun kúa hefur framleiðsla mjólkur ekki dregist saman að sama skapi enda nokkuð viðbúið þar sem fæstir senda væntanlega frá sér þær kýr sem eru afurðamiklar. Þó hefur mjólkurframleiðslan dregist saman en ekki nema um 3%. Hafa margir bent á að Nýsjálendingar verði væntanlega fljótir að keyra framleiðsluna upp á ný verði ástæða til þess, með hlutfallslega fleiri betri kýr nú en áður eftir þessa hrinu kúaslátrunar í landinu/SS.