
Kúariðufaraldurinn hefur kostað Evrópubúa um 8.900 milljarða!
28.10.2003
Evrópsk sérfræðinganefnd hefur komist að því að kúariðufárið, sem hrellti heimsbyggðina fyrir nokkrum árum, hafi kostað frá upphafi og til dagsins í dag um 8.900 milljarða ÍKR! Í greinargerð nefndarinnar um áhrif kúariðunnar í Evrópu, kemur m.a. fram að kúariðan hefur komið upp í flestum löndum í Evrópu (þó ekki á Íslandi), sem og í a.m.k. tveimur löndum utan Evrópu: Japan og Kanada.
Kúariðan kom fyrst upp í Bretlandi árið 1986 og dreifðist þaðan til a.m.k. 21 lands. Samkvæmt áliti nefndarinnar er þetta versti faraldur sem komið hefur upp í Evrópskri búfjárrækt síðustu 100 árin. Síðan fyrsta tilfellið var greint 1986, hafa verið staðfest rúmlega 180 þúsund sýkt dýr. Á sama tíma hafa 136 manneskjur greinst með ákveðna gerð af Jakob-Creutzfelt sjúkdóminum (vCJD) sem enn er talinn tengjast áti á kúariðusýktu kjöti.
Tekið er fram í skýrslu nefndarinnar, að þrátt fyrir að sjúkdómurinn sé undir ströngu eftirliti og að allt útlit sé fyrir að það takist að eyða kúariðunni innan næstu 10 ára, þá muni afleiðingar kúariðunnar finnast í mörg ár eftir það. Sem dæmi um það er að í mörgum löndum hefur trú neytenda á nautakjöti algerlega fallið og mun væntanlega aldrei komast á sama stig og fyrir kúariðuna. Jafnframt er tiltrú almennings á yfirvöldum og eftirlitskerfinu mjög lítil í mörgum löndum Evrópu.
Athygli vekur að í skýrslunni eru lagðar fram þrjár spurningar sem ekki er svarað:
– Hvaðan kemur kúariða upprunalega og úr hvaða dýrategund kemur hún?
– Hvernig verður ástandið með Jakob-Creutzfelt sjúkdóminn á næstu árum?
– Hvað á að gera við þau 16 milljón tonn af sláturúrgangi sem falla til, sem áður var notað sem kjöt- og beinamjöl?