Beint í efni

Kúafjöldinn í Evrópusambandinu stóð í stað

19.04.2017

Þriðja árið í röð hefur kúafjöldinn í löndum nágranna okkar í Evrópusambandinu nánast staðið í stað sýna nýjar tölur frá tölfræðistofnuninni Eurostat. Reyndar varð örlítill samdráttur á síðasta ári er kúm fækkaði um 49 þúsund en þrátt fyrir að það væri óhugsandi stærð á Íslandi þá er þetta ekki nema 0,2% af kúnum í löndum Evrópusambandsins, sem voru 23,5 milljónir í lok síðasta árs.

Undanfarna áratugi hefur fjöldi kúa sveiflast töluvert á milli ára og það þrátt fyrir að mestan hluta þess tíma hafi verið kvótakerfi í notkun í Evrópusambandinu. Mestur fór fjöldinn í tæplega 24,5 milljónir kúa árið 2008 en hrundi svo, í kjölfar efnahagshrunsins, niður í 23 milljónir árið 2011 en hefur verið í kringum 23,5 milljónir kúa undanfarin fjögur ár. Þess má geta að síðustu þrjú ár hefur kúabúum fækkað nokkuð í svotil öllum löndum Evrópusambandsins og benda því tölurnar um fjölda kúa til þess að búin sem eftir eru séu að stækka töluvert.

Sé horft til þeirra landa, þar sem mestar breytingar hafa orðið, þá má nefna þar Holland en kúm fjölgaði þar um 77 þúsund (og mun fækka um annað eins í ár vegna krafna um umhverfismál), Írland þar sem kúm fjölgaði um 55 þúsund og þá á eftir kemur Pólland með 26 þúsund fleiri kýr árið 2016 en 2015. Í Þýskalandi fækkaði kúm hinsvegar mest, eða um 67 þúsund. Þá fækkaði kúm einnig í Frakklandi um 31 þúsund og á Spáni um 24 þúsund/SS.