Kúabúum í Noregi hefur fækkað um helming á 10 árum
08.02.2010
Kúabúum í Noregi hefur fækkað um helming á síðasta áratug. Ný rannsókn þar sýnir að minnstu búin týna tölunni hraðar en nokkru sinni. Í dag eru búin 12.000 talsins og samkvæmt upplýsingum frá Landbrukets Utredningskontor, sem gerði rannsóknina, mun herða á fækkuninni á komandi árum. Í svipaðri rannsókn frá 2007 svöruðu 10% framleiðenda að þeir myndu hætta mjólkurframleiðslu innan 3 ára; strax að tveimur árum liðnum voru 13% hætt.
Rannsóknin sýnir að stærri framleiðendur hafa hug á að stækka enn meira við sig í framtíðinni. 61% af búum með meira en 200.000 lítra framleiðslu reikna með að auka framleiðsluna innan 5 ára. Einungis 31% framleiðenda með minna en 75.000 lítra ársframleiðslu reikna með framleiðsluaukningu á næstu 5 árum.
Fimmti hver framleiðandi með undir 100.000 lítra framleiðslu er óviss um framtíðina en aðeins 8% framleiðenda með yfir 200 þús. lítra framleiðslu.
„Þessar niðurstöður má túlka sem svo að bjartsýni sé ríkjandi í greininni. Einnig má túlka þessar niðurstöður á þann veg að framleiðendur búi við slaka afkomu og þess vegna sé nauðsynlegt að auka framleiðsluna til að geta haldið henni áfram“, segir einn af höfundunum, Erlend Nyhammer.
Heimild: www.nationen.no