Beint í efni

Kúabú í Brasilíu áætla tvöföldun!

23.05.2015

Mesta útflutningsland heims á sviði nautakjöts, Brasilía, er síður en svo að draga úr umsvifunum á heimsmarkaðinum. Fram til ársins 2023 er áætlað að framleiðsla kúabúa landsins á nautakjöti muni nefninlega tvöfaldast og fara í um 15 milljónir tonna á ári en þar af fara um 2,3 milljónir tonna til útflutnings. Það sem er þó sérstakt við þessa áætluðu aukningu er að skýringin felst í lélegum samgöngum innan Brasilíu!

 

Framleiðsla á bæði soja og maís er mjög mikil í Brasilíu en samgöngukerfið er svo erfitt og vegasamgöngur slæmar að flutningskostnaður innan landsins er mjög mikill. Þess vegna verður kornið ekki samkeppnishæft þegar það lokst berst að hafnarbakkanum og því er einfaldlega hagkvæmara að selja það bændum á heimamarkaðinum í Brasilíu. Þar eru auðvitað kúabændur fremstir í flokki sem kaupendur á maís og soja, sem aftur skýrir áætlun um framleiðsluaukningu á kjöti vegna aukinnar kornframleiðslu.

 

Þessi misserin hafa verið byggð upp stór bú í landinu þar sem lokaeldi nauta fer fram en markaðurinn fyrir kjöt er nú mjög eftirsóknarverður í bæði Japan, Suður-Kóreu og Evrópu. Það kemur etv. á óvart en Indland er í dag næst stærsti útflytjandi á nautakjöti en þar eru framleidd árlega um 4 milljónir tonna af nautakjöti og fer um helmingur framleiðslunnar til útflutnings. Í löndum eins og Bandaríkjunum og Ástralíu, sem áður voru stór á heimsmarkaði, er nú samdráttur í framleiðslu.

 

Þar sem næstkomandi mánudagur er annar í Hvítasunnu verður vefurinn næst uppfærður á þriðjudaginn/SS.