Beint í efni

Kúabændur vilja segja upp tollasamningi við Evrópusambandið

06.11.2020

Aðalfundur Landssambands kúabænda stendur nú yfir. Tollamál eru þar til umfjöllunar og krefjast kúabændur þess að stjórnvöld leiti allra leiða til að segja upp samningi við ESB um tolla og tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur, frá 17. september 2015. Í ályktuninni segir að „Með útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og fækkun ferðamanna undanfarin ár er ljóst að forsendur samningsins eru með öllu brostnar. Bretland hefur verið helsti markaður Íslands fyrir útflutning landbúnaðarvara á meðan innflutningur kemur hins vegar að mestu frá öðrum ESB löndum.“

Einnig skora kúabændur á fjármálaráðherra að leggja höfuðáherslu á að komast til botns í því af hverju misræmi í útflutningstölum frá Evrópusambandinu og innflutningstölum Hagstofunnar stafar og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt. Ljóst er að eftirliti er mjög ábótavant og hugsanlega um alvarleg lögbrot að ræða. Um er að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir kúabændur, neytendur, ríkissjóð og fyrirtæki sem sannanlega fara eftir settum lögum og reglum. Þá krefst fundurinn þess að tollflokkun á ostum, sem ranglega hafa verið fluttir inn og tollafgreiddir sem jurtaostar á tollskrárnúmerinu 2106.9068, verði leiðrétt hið fyrsta. Í sumar tilkynnti Tollgæslustjóri að umræddar vörur yrðu framvegis tollflokkaðar í 4. kafla tollskrár eins og annar ostur. Þrátt fyrir það var í ágúst 2020 slegið met í magni sem flutt var inn á tollnúmeri 2106.9068.

Fallið verði frá nýrri úthlutunaraðferð á tollkvótum

Þá beinir fundurinn því til landbúnaðarráðherra að fallið verði frá þeirri nýju úthlutunaraðferð á tollkvótum sem tók gildi um mitt þetta ár, á sama tíma og tollkvótar eru að stóraukast. Verð á tollkvótum fyrir nautgripakjöt hefur lækkað um 75% frá ársbyrjun 2019 og með nýrri úthlutunaraðferð lækkaði verð um 40% frá fyrra útboði í ársbyrjun 2020. Verð á tollkvótum fyrir osta lækkaði um 5,5% frá fyrra útboði í byrjun árs 2020 og hefur frá byrjun árs 2019 lækkað um 12%. Þessar lækkanir hafa ekki skilað sér til neytenda. Miklar verðlækkanir hafa dunið á íslenskum nautakjötsframleiðendum á sama tíma, og ef fer sem horfir er hætta á að sá árangur sem náðst hefur í greininni undanfarin ár verði fyrir bí. Þannig hefur verð til nautakjötsframleiðenda lækkað um 11,4% en vísitala nautakjöts hækkað um 6,5% frá ársbyrjun 2018.