Beint í efni

Kúabændur vilja nýtt fyrirkomulag á verðlagningu

07.04.2018

Aðalfundur Landssambands kúabænda, sem nú stendur yfir á Hótel Selfossi, samþykkti rétt í þessu ályktun þess efnis að stjórnvöld skuli ljúka útfærslu 12. greinar búvörusamnings um starfsskilyrði nautgriparæktar þar sem kveðið er á um verðlagningu, og koma henni í framkvæmd. Í greininni felst að verðlagsnefnd í núverandi mynd verði lögð af og afurðastöðvum verði heimilt að verðleggja mjólk til framleiðenda og ákvarða heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skuli opinber aðili ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks og setja markaðsráðandi afurðastöð tekjumörk á innlendum markaði.

Einnig kveður greinin á um að afurðastöð sem tekur á móti að minnsta kosti 80% mjólkur verður gert skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða þeim sama verð óháð búsetu.

Hér fyrir neðan má lesa 12. grein samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt í heild sinni.

12.gr.

Verðlagning

12.1 Afurðastöðvum verður heimilað að verðleggja mjólk til framleiðenda og ákvarða heildsöluverð á mjólkurafurðum. Þó skal opinber aðili ákveða lágmarksverð til framleiðenda fyrir mjólk innan greiðslumarks fram til 1. janúar 2021, sem byggi á skilgreindri vísitölu framleiðslukostnaðar og upplýsingum um afkomu bænda.

12.2 Afurðastöð sem tekur á móti að minnsta kosti 80% mjólkur verður gert skylt að safna mjólk frá framleiðendum um land allt og greiða þeim sama verð óháð búsetu. Þá verður slíkri afurðastöð skylt að selja afurðir á sama heildsöluverði hvar sem er á landinu. Einnig að selja öðrum vinnsluaðilum tiltekið magn af mjólk og mjólkurafurðum til frekari vinnslu samkvæmt verðskrá sem opinber aðili staðfestir.

12.3  Opinber aðili skal setja markaðsráðandi afurðastöð tekjumörk á innlendum markaði. Tekjumörk skulu taka mið af breytilegum og föstum kostnaði auk arðsemi sem skilgreind er af opinberum aðila. Bókhaldslegur aðskilnaður skal vera á innlendri og erlendri starfsemi markaðsráðandi afurðastöðvar.