Kúabændur syngja og dansa
20.04.2013
Það eru nýttar margvíslegar aðferðir til þess að efla og bæta ímynd mjólkurframleiðslunnar og er mjólkurframleiðsla í Bandaríkjunum þar engin undantekning. Í mið-vestur fylkjunum Iowa, Minnesota og South Dakota starfa samtök kúabænda sem heita Midwest Dairy Association en til þeirra heyra 9.500 kúabú. Samtök þessi reka meðal annars heimasíðuna Dairy Makes Sense (www.dairymakessense.com) sem mætti þýða sem “mjólkurframleiðsla er skynsamleg”. Á þessari heimasíðu var nýverið kynnt myndband þar sem 65 kúabændur syngja um mjólkurframleiðslu við lag Beach Boys “Good Vibrations”.
Það hafa nú trúlega komið fram á sjónarsviðið betri söngvarar, en það má þó segja þeim til hróss að hafa fengið kúabændur á öllum aldri til þess að taka þátt og syngja og dansa við lagið! Boðskapurinn er í það minnsta á hreinu: “Við erum stoltir bændur og framleiðum holl matvæli fyrir þjóðina”. Þetta eftirtektarverða framtak má m.a. sjá og hlusta á hér: http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=Ss2XGxblNZY# /SS.