
Kúabændur samþykktu samning
04.12.2019
Atkvæðagreiðslu meðal kúabænda um endurskoðun nautgripasamnings lauk í hádeginu í dag, miðvikudaginn 4. desember. Samkomulag bænda og stjórnvalda var samþykkt með afgerandi meirihluta atkvæða. „Já“ sögðu 447 eða 76%. „Nei“ sögðu 132 eða 22,5%. Níu tóku ekki afstöðu. Ef aðeins eru teknir þeir sem afstöðu tóku þá var samkomulagið samþykkt með 77,2% atkvæða. Á kjörskrá voru 1.332 en atkvæði greiddu 588, eða 44,1%.
Kosningin var opin í viku en kjörsóknin var dræm til að byrja með. Um sólarhring fyrir auglýstan frest höfðu einungis rúm 25% bænda greitt atkvæði. Kjörsókn bænda í atkvæðagreiðslum hefur verið nokkuð misjöfn í gegnum tíðina. Ríflega 45% þátttaka var í rafrænni atkvæðagreiðslu um endurskoðun sauðfjársamnings fyrr á árinu og 70,8% kúabænda kusu um nýjan nautgripasamning árið 2016. Árið 2012 var kosið um framlengingu nautgripasamnings og þá var kjörsókn aðeins 36%.
Atkvæðagreiðslan fór fram með rafrænum hætti en upplýsingar um samkomulagið eru aðgengilegar á vef Bændasamtakanna, bondi.is.