Beint í efni

Kúabændur samþykkja sameiningu við Bændasamtök Íslands

09.04.2021

Aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti í dag tillögu um nýtt félagskerfi bænda og mun starfsemi LK færast undir Bændasamtök Íslands (BÍ) um mitt þetta ár. Miklar og málefnalegar umræður voru á fundinum um ýmis útfærsluatriði er varða umgjörð hagsmunagæslu greinarinnar og tengingu við grasrótina. Málið var samþykkt með 27 atkvæðum gegn einu mótatkvæði. Einn sat hjá við afgreiðslu málsins.

Landssambandi kúabænda verður ekki slitið en starfsemi samtakanna færist undir Bændasamtök Íslands. Sjóðir og eignir LK verða áfram á hendi samtakanna og stjórn LK, sem jafnframt verður stjórn búgreinadeildarinnar, mun hafa umsjón með þeim.

Er markmið sameiningar samtakanna við Bændasamtök Íslands að ná fram aukinni skilvirkni og eflingu hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, bæði einstakar búgreinar og í heild. Nýjar samþykktir Bændasamtaka Íslands og þingsköp Búnaðarþings og Búgreinaþings verða lagðar fyrir til samþykktar á Aukabúnaðarþingi 10. júní nk. og gert er ráð fyrir að sameiningin muni verða 1. júlí 2021.