Kúabændur mótmæla í Brussel
13.05.2011
Í síðustu viku stóð samband evrópskra mjólkurframleiðenda, The European Milk Board (EMB), fyrir mótmælum við Evrópuþingið í Brussel. Tilgangur mótmælanna var að beina athygli ráðamanna að alvarlegri stöðu mjólkurframleiðslunnar innan Evrópusambandsins en í lok mánaðarins mun Evrópuþingið taka ákvörðun um heimildir bænda til samþættingar og samstarfs, eins og naut.is hefur áður greint frá. EMB telur að fái bændur ekki tryggar heimildir til samvinnu og samstarfs, þá verði útilokað annað en að kaupmenn nái stjórn á þessum markaði og það muni leiða til glötunar.
Sieta van Keimpema, varaforseti EMB, sagði af þessu tilefni að bændur væru afar ósáttir og vilji fá að vinna saman, innan eðlilegra lagaramma, svo þeir geti betur tryggt ásættanlegt verð fyrir hrámjólkina.
Forseti samtakanna, Romuald Schaber, bætti við og sagði: „Mjólkurframleiðslumarkaðurinn er afar flókinn alþjóðlegur markaður sem er ætlað að sinna íbúum Evrópu með ferskar hágæða mjólkurvörur. Evrópusambandið verður að sjá til þess að ytri rammi framleiðslunnar sé með þeim hætti að leikmenn á markaðinum geti sinnt hinum mikilvægu þörfum hans. Með því t.d. að fylgjast náið með markaðsaðstæðum og að setja lágmarksverð á hrámjólk, sem byggir á framleiðslukostnaði, teljum við að framleiðslan verði tryggð. Til viðbótar viljum við gera kúabændum mögulegt að starfa saman og styrkja samningsstöðu sína þannig gagnvart einkareknum afurðastöðvum. Gangi þetta eftir, teljum við framtíð í mjólkurframleiðslu í Evrópu“ /SS.