Beint í efni

Kúabændur í Nýja-Sjálandi færa út kvíarnar

23.09.2010

Fonterra, afurðafyrirtæki nýsjálenskra kúabænda, hefur nú kynnt áætlun sína um stóraukin umsvif í Kína. Nú þegar rekur félagið kúabú í Kína, en hefur nú tilkynnt um stofnun tveggja búa til viðbótar. Ástæða þess að Fonterra fjárfestir í Kína er einfaldlega til þess að tryggja stöðu félagisins og um leið að tryggja leið fyrir vörur beint inn á þennan risamarkað.

 

Búist er við því að kínverski mjólkurvörumarkaðurinn verði stærsti kaupendamarkaður í heimi næstu

áratugi og er ætlað að vöxtur markaðarins verði mældur í tugum prósenta næstu tíu árin. Jafn ljóst er að mikilvægt er hverju afurðafyrirtæki að koma sér fyrir á markaðinum strax í upphafi vaxtarskeiðsins, sem er einmitt það sem nýsjálensku kúabændurnir eru nú að gera.

 

Nú þegar er starfrækt kúabú á þeirra vegum í Hebei héraðinu, en það kúabú var stofnað árið 2007. Á búinu eru nú 3.300 mjólkandi kýr og er landið undir búið 35 hektarar. Alls vinna 350 manns við búið og vinnslu mjólkurvara úr afurðum þess, en framleiðsla síðasta almanaksárs voru 25 milljónir lítrar.

 

Nýju kúabúin, sem nú er búið að gera samkomulag um við kínversk yfirvöld, verða í Yutian héraði og verða þau jafn stór og kúabúið í Hebei héraði. Samningaviðræður um stofnun búanna við kínversk yfirvöld stóðu yfir í rúmt ár, en helsta samningaatriðið var sú ófrávíkjanlega krafa nýsjálensku kúabændanna að hafa full yfirráð yfir kúabúum sínum í Kína. Þegar sýnt hafði verið fram á öruggan og góðan rekstur búsins í Hebei gáfu heimamenn eftir, segir m.a. í fréttatilkynningu Fonterra.