Beint í efni

Kúabændur greiða 9 milljarða vegna framleiðslu umfram kvóta

25.10.2011

Uppgjöri á mjólkurframleiðslunni í löndum Evrópusambandsins á síðasta kvótaári, sem lauk 31. mars sl., er nú lokið. Á daginn kom að í fimm af aðildarlöndunum 27 var mjólkurframleiðslan meiri en kvóti aðildarlandanna heimilar. Um er að ræða Danmörku, Holland, Austurríki, Kýpur og Lúxemburg. Samtals var framleiðslan í þessum löndum 200.000 tonn umfram kvótann. Í samræmi við reglur ESB þurfa bændur í þessum löndum að greiða 55,6 milljónir evra, eða sem nemur um 9 milljörðum króna í offramleiðslugjald, eða „super-levy“ eins og gjaldið kallast á ensku. Offramleiðslan á sér stað þrátt fyrir að kvóti aðildarlandanna hafi verið aukinn um 1% kvótárið 2010-2011. Sé litið til Evrópusambandsins í heild, var samanlögð mjólkurframleiðsla aðildarlandanna 6% undir heildarkvótanum, í fjórtán aðildarlöndum var hún meira en 10% undir landskvótanum. Offramleiðslugjaldið er 27,83 evrur pr. 100 kg sem framleidd eru umfram kvótann, eða um 4.500 kr.

Dacian Ciolos, landbúnaðar- og byggðamálakommisar framkvæmdastjórnar ESB hafði eftirfarandi um málið að segja: Þrátt fyrir að ákvörðun um að leggja kvótakerfið af árið 2015 hafi verið tekin árið 2008, verða aðildarríkin engu að síður að fylgja reglunum. Til að koma til móts við sjónarmið mjólkurframleiðenda á næstu árum, lagði framkvæmdastjórnin fram ákveðnar tillögur í desember sl. Tillögur að breytingum á CAP (sameiginlegu landbúnaðarstefnunni) frá því núna í október, gera einnig ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika, sem koma eiga til móts við áhyggjur framleiðenda af framtíðarskipan mála. Svo mörg voru þau orð. Kvótakerfi ESB er skipt í tvennt, annars vegar fyrir hefðbundna framleiðslu sem lögð er inn í afurðastöð, hins vegar fyrir heimavinnslu og -sölu beint frá býli. Danskir og hollenskir kúabændur framleiddum í báðum tilfellum umfram landskvótann. Þurfa danskir bændur að greiða 8 milljónir evra (1,3 milljarða isk) fyrir að hafa farið 0,6% framúr kvóta og hollenskum bændum verður gert að greiða tæplega 40 milljónir evra (6,3 milljarða) fyrir að framleiða 1,2% umfram mjólkurkvóta Hollands./BHB

 

Fréttatilkynning framkvæmdastjórnar ESB